Birkir Ingibjartsson arkitekt útskrifaðist frá Listaháskólanum vorið 2012 en hélt eftir það til Svíþjóðar þar sem hann lærði við KTH. Hann hefur mestan áhuga á borginni sem stað, rými og fyrirbæri en langar þó fyrst og fremst að teikna góð borgarhús.

Birkir starfar nú fyrir Varg Arkitekter í Stokkhólmi og segir verkefnin þar mjög spennandi. „Við erum fyrst og fremst að teikna íbúðarhús inn í eldri íbúðarhverfi eða önnur svæði sem eru að ganga í gegnum endurnýjun á stór-Stokkhólms svæðinu. Stokkhólmur er að vaxa mjög hratt og okkar verkefni snúast því mikið um að styrkja og/eða skilgreina hið sameiginlega borgarrými með okkar byggingum. Borgin sem slík er því alltaf í forgrunni þó við séum svo að teikna einstaka hús.“ Hann segir lífið eftir skóla líka ljúft. „Mér finnst mjög gaman að vera farinn að gera allt þetta praktíska og „leiðinlega“ sem maður þarf lítið að leiða hugann að í skólanum.“

Námið í KTH átti vel við Birki. „Á þessum tveimur árum var ég í þremur mjög ólíkum vinnustofum. Ég byrjaði í parametrískrum forritunarpælingum en endaði svo á því að vinna lokaverkefnið mitt nánast bara í höndunum. Svíar eru alltaf svo sultuslakir og það kenndi mér að fylgja eigin innsæi í stað þess að vera í stöðugum eltingaleik.“

En hvað er arkitektúr?

„Arkitektúr snýst um að forma hugmyndir. Hvort sem það snýst um borgina og jafnræði milli íbúa hennar eða einbýlishúsið og hugmyndir fólks um stöðu sína og hlutverk.

Arkitektúr er að byggja með ákveðinni og meðvitaðri meiningu. Almennt held ég að arkitektar mættu taka þetta hlutverk sitt alvarlegar og móta hugmyndir í stærra og minna samhengi en bara í húsum.“  

Myndirnar eru úr lokaverkefni Birkis við KTH en það fjallaði um Snorrabraut og möguleikann á að byggja þar nokkur PUF, eða það sem hann kallar Projective Urban Fragments. Hann vann verkið út frá óljósri draumkenndri hugmynd um hvernig Reykjavík gæti orðið í framtíðinni og velti fyrir sér hvaða ferli færu af stað með að setja áður óþekkt en þó kunnuleg borgarfragment inní borgina með þessum hætti.

Birkir brallaði ýmislegt hérna heima áður en hann hélt út. Til dæmis var hann hluti af hópnum Betristofa borgarinnar sem gæddi miðborgina lífi og hann tók þátt í verkefninu Eyðibýli á Íslandi þar sem nemar í arkitektúr unnu að rannsókn og samantekt á eyðibýlum og yfirgefnum húsum á Íslandi. En finnst honum sú reynsla nýtast sér í dag? „Betristofan kenndi okkur að horfa á rýmin innan borgarinnar með mun opnari augum. Þröng skúmaskot eða opin og leiðinleg bílastæðaplön eru ekkert nema tækifæri.

Eyðibýla-verkefnið var mun óáþreifanlegra. Það gaf fyrst og fremst einhverja djúpa en óræða tilfinningu fyrir íslenskri byggingararfleifð. Afleiðingar þess hafa held ég ekki náð upp á yfirborðið.“

En hvernig lítur arkitektúrnámið í Listaháskólanum út í baksýnisspeglinum? „Smæð skólans er augljósasta atriðið sem skilgreinir skólann að stórum hluta. Návígið við aðra nemendur, kennara og deildir var mjög áhugavert og gefandi á meðan skortur á viðunandi aðstöðu hamlaði á ýmsa vegu. Mér þykir þó mjög verðmætt að hafa tekið grunninn heima og hafa grúskað í skipulagi borgarinnar og íslenskri byggingarsögu. Skemmtilegast er þó auðvitað að eiga fjölmarga vini í bransanum sem brenna öll fyrir betri borg og íslenskum arkitektúr.“

vargarkitekter.se