Berglind María Tómasdóttir hefur verið ráðin dósent í flutningi og miðlun samtímatónlistar við tónlistardeild Listaháskólans.
 
Berglind María hefur fest sig í sessi sem tónlistarmaður á sviði flutnings og miðlunar samtímatónlistar og verið virk sem slík innanlands og á alþjóðvettvangi. Hún hefur reynslu af kennslu og stjórnun á háskólastigi við tónlistardeild Listaháskóla Íslands og af kennslu við Kaliforníuháskóla í San Diego auk kennslu við aðra tónlistarskóla innanlands. Af öðrum störfum má nefna að Berglind María hefur starfað sem verkefnastjóri tónlistarhátíðarinnar Tectonics, hún var framkvæmdastjóri Sumartónleika í Skálholtskirkju á árunum 2004-2006 og framkvæmdastjóri Íslensku tónlistarverðlaunanna árin 2005-2006.
 
Berglind María hefur lokið doktorsgráðu (D.M.A.) í flutningi samtímatónlistar frá Kaliforníuháskóla í San Diego, diplómaprófi frá Konunlega danska músíkkonservatoríinu í Kaupmannahöfn og blásarakennaraprófi og burtfararprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík.