Í júní á síðasta ári lagði Freyja Gunnlaugsdóttir, klarínettuleikari og aðstoðarskólastjóri Tónlistarskólans í Reykjavík (TR), fram meistararitgerð sína í stjórnun og stefnumótun við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.  Ritgerðin fjallar um stöðu framhaldsmenntunar í tónlist, sögu hennar og framtíðarhorfur.

Margt í ritgerðinni er upplýsandi og fróðlegt, sér i lagi sögulegi hlutinn; greining Freyju á fjárhagsvanda framhaldsstigsins og pólitískum átökum um tónlistarmenntun á Íslandi.

Því miður er ritgerðin gölluð að ýmsu öðru leyti; margar fullyrðingar settar fram án þess að þær séu studdar rökum og í sumum tilfellum virðist umfjöllunin nær einvörðungu byggð á huglægu mati Freyju sjálfrar, skorti á upplýsingum og jafnvel fordómum. Lýsingar Freyju á tónlistarnámi í LHÍ eru ónákvæmar, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Engar tilraunir virðast hafa verið gerðar til að afla nákvæmra upplýsinga um starfsemi deildarinnar, orðfærið er einnig oft á tíðum afar gildishlaðið og virðist vera til þess ætlað að upphefja Tónlistarskólann í Reykjavík á kostnað LHÍ og annara tónlistarskóla. 

Erfitt er að koma í veg fyrir að órökstuddar fullyrðingar rati inn í meistararitgerðir og í sjálfu sér er það ekki kveikjan að þessari athugasemd, en þar sem þessi gallaða ritgerð virðist vera orðin að vegvísi mennta- og menningarmálaráðuneytis að uppbyggingu framhaldsmenntunar í tónlist er ekki hægt að láta hjá líða að gera athugasemdir við nokkur atriði sem þar koma fram.

Í kafla 4.7 gerir Freyja SVÓT-greiningu á tónlistarmenntun á Íslandi og hefur einhverra hluta vegna sett háskólamenntun í tónlist sem einn af veikleikum menntunar.

Listaháskóla Íslands hefur ekki hefur [sic] tekist að skapa það háskólaumhverfi sem nauðsynlegt er til þess að nemendur geti þroskast sem hljóðfæraleikarar. Nemendur á háskólastigi í hljóðfæraleik eru raunar fáir og þeir fá ekki nauðsynlega þjálfun í hljómsveitarleik, sviðsframkomu, samspili í kammersveitum og öðru sem nauðsynlegt er til þess að undirbúa nemendur undir að starfa sem tónlistarmenn. Námið við LHÍ hentar því illa nemendum sem útskrifast úr Tónlistarskólanum í Reykjavík og ætla sér að verða klassískir hljóðfæraleikarar.“  (bls. 76)

Hér lýsir Freyja eigin viðhorfi og er ekki að sjá að hún hafi nokkur gögn sem styðja þessa fullyrðingu. Í reynd er þjálfun í sviðsframkomu hljóðfæraleikara og söngvara við tónlistardeild LHÍ mjög mikil. Fjöldi viðburða þar sem nemendur koma fram sem tónlistarflytjendur eru vel á áttunda tuginn og framkomuskylda í söng og hljóðfæranámi er mun meiri en í mörgum tónlistarháskólum erlendis.  Á síðasta skólaári voru starfræktir um 30 kammerhópar af ýmsum stærðum og samsetningum, strengjasveit (í samstarfi við Tónlistarskólann í Reykjavík) og kammersveit. Þar fyrir utan eru fræðileg skyldunámskeið sem tengjast sviðsframkomu og líkamsbeitingu. Allt tal um að hljóðfæraleikara og söngvara tónlistardeildar skorti þjálfun í sviðsframkomu er því einfaldlega rangt.  Hvað hljómsveitarleik áhrærir er það rétt að tónlistardeildin býr ekki svo vel að geta rekið sinfóníuhljómsveit, enda harla ólíklegt að nógu margir hljóðfæraleikarar verði á háskólastigi á sama tíma til að það verði nokkurn tíman mögulegt.  Tónlistardeild LHÍ hefur verið meðvituð um þetta frá stofnun og hefur kappkostað að vera í góðu samstarfi við þær hljómsveitir sem eru starfræktar hér á landi, líkt og Sinfóníuhljómsveit Íslands, Ungsveit S.Í, Sinfóníuhljómsveit Unga fólksins, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Sinfóníuhljómsveit áhugamanna. Þá hefur einnig samstarf við háskólahljómsveitir erlendis verið með ágætum og nemendur okkar tekið þátt í verkefnum í Gautaborg, Berlín og víðar.  Við það bætast einnig þeir fjölmörgu möguleikar á skiptinámi erlendis sem nemendur deildarinnar hafa fært sér vel í nyt.

Sú ályktun Freyju að námið við LHÍ henti nemendum TR illa er algerlega úr lausu lofti gripið. Engin gögn, engin viðtöl við nemendur eða rannsóknir liggja þessu að baki.  Þessi ummæli virðast því einkum hugsaðar sem tilraun til að upphefja námið við TR.

Ef umfjöllun Freyju um hagsmunaaðila TR er skoðuð kemur enn betur í ljós hvað áðurnefnd fullyrðing um námið í LHÍ er röng. Um Sinfóníuhljómsveit Íslands segir Freyja:

„Flestir hljóðfæraleikarar í Sinfóníuhljómsveit Íslands hafa stundað nám við Tónlistarskólann og því má segja að það sé mjög mikilvægt fyrir hljómsveitina að skólinn haldi áfram að útskrifa góða hljóðfæraleikara sem munu síðar taka sæti í hljómsveitinni.“ (bls. 111)

 

„Það er alveg rétt hjá Freyju að meirihluti íslenskra hljóðfæraleikara við hljómsveitina hafi stundað nám við TR. Hins vegar hefur henni yfirsést sú staðreynd að stærstur hluti innlendra hljóðfæraleikara í hljómsveitinni s.l 6 ár, stunduðu nám við tónlistardeild LHÍ.  Ekki ætla ég að gerast svo djarfur að þakka einvörðungu náminu við tónlistardeild þessa staðreynd, en tel hins vegar hana sterka vísbendingu um að nám við tónlistardeild henti mjög vel þeim nemendum sem vilja gera hljómsveitarleik að sínum starfsvettvangi."
 

 

Freyju er tíðrætt um skort á kennaramenntun við LHÍ og gerir mikið úr því að engar kennarabrautir voru stofnaðar við tónlistardeild fyrr en árið 2013.

 

„Kennaramenntun er einnig ábótavant og engir klassískir hljóðfærakennarar hafa útskrifast á [sic] síðan kennaradeildir tónlistarskólans [sic] í Reykjavík voru lagðar niður á sama tíma og Listaháskóli Íslands var stofnaður. Síðasti árgangur hljóðfærakennara útskrifaðist árið 2003 frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og því vantar heila kynslóð af hljóðfærakennurum.“ (bls 76)

Það var e.t.v. misráðið hjá tónlistardeild að gera hljóðfærakennaramenntun ekki hærra undir höfði, en það er samt langt frá því að ekki hafi verið áhersla á kennaraþáttinn í náminu.  Allt frá stofnun deildarinnar hefur verið unnið út frá þeirri hugmyndafræði að allir hljóðfæraleikarar myndu einnig starfa sem kennarar.  Því hafa allir hljóðfæraleikarar og söngvarar, sem útskrifast hafa með BMus gráðu frá deildinni fengið þjálfun í kennslufræði hljóðfæris síns, eða hljóðfærahóps.  Þess má einnig geta að frá 2003 hefur verið rekin námsbraut sem leggur ríka áherslu á miðlun tónlstar og hentar vel þeim sem vilja gera tónlistarkennslu að sínu ævistarfi.  Frá árinu 2008 hefur verið starfrækt listkennsludeild á meistarastigi með kennsluréttindum til grunn- og framhaldsskóla og hafa margir útskrifaðir nemendur tónlistardeildar sótt sér framhaldsmenntun við þá deild. Alls hafa um 40 nemendur með tónlistarmenntun útskrifast frá listkennsludeild í áranna rás og haldið til starfa innan tónlistar-, grunn- og framhaldsskólakerfisins.  Það er því einfaldlega ekki rétt að engir klassískir hljóðfærakennarar hafi útskrifast frá LHÍ, þótt vissulega mættu þeir vera fleiri. Frá og með næsta hausti verður boðið upp á meistaranám í söng- og hljóðfærakennslu og verður það vonandi enn eitt skrefið í átt að uppbyggingu kennaramenntunar á Íslandi. 

Einn viðmælandi Freyju heldur því fram að 200 tónlistarkennarar hefðu útskrifast á sl.15 árum hefði TR fengið að halda áfram að reka kennaradeildir sínar, (bls. 104).

Þessi ummæli birtir Freyja gagnrýnislaust, að því er virðist einvörðungu til að koma höggi á tónlistardeild LHÍ. Það má eflaust kenna LHÍ að einhverju leiti um skort á menntuðum tónlistarkennurum. Það er hinsvegar ákaflega einfaldningslegt að halda að utanaðkomandi þættir líkt og breytt starfsumhverfi, slæm launakjör og miklar samfélagsbreytingar hafi ekkert með skort á tónlistarkennurum að gera.

Fullyrðingar Freyju um tónlistardeild LHÍ eru oft á tíðum bísna gildishlaðnar án þess að þeim fylgi nokkur rökstuðningur og virðist þeim einkum ætlað að upphefja Tónlistarskólann í Reykjavík á kostnað tónlistardeildar og gerir það verkum að tónninn í ritgerðinni fær stundum á sig blæ yfirlætis og jafnvel hroka.

„Tónlistarskólinn hélt sínu striki þrátt fyrir stöðuga fjárhagsörðugleika og hélt áfram að leggja áherslu á gott hljóðfæranám, fræðigreinar og gott handverk. Áfram var sinfóníuhljómsveit starfandi innan hans og óperusýningar á hverju ári.

Listaháskólinn lagði aftur á móti áherslu á tónsmíðar en vanrækti aðra þætti líkt og kennaramenntun og hljóðfæranám sem alla jafna er hryggjarstykkið í starfi tónlistarháskóla.“ (bls. 104)

Það væri athyglisvert að vita hvað býr að baki skilgreiningu Freyju á orðinu „vanrækslu“ og hvernig henni detti það yfirleitt í hug að nota svo sterk orð án þess að færa nokkurn tíman rök fyrir því.  Nokkuð athyglisvert að leiðbeinandi hennar hafi ekki áttað sig á þessu heldur.

Ég leyfi mér að halda því fram að það gagnstæða hafi einmitt átt sér stað, sérstök rækt hefur verið lögð við hljóðfæra- og söngnemendur okkar í gegnum tíðina, vel haldið utan um nám þeirra og þeim gefinn kostur að þroskast sem listamenn með góðri kennslu og ríkri þjálfun í fræðagreinum og góðu handverki undir leiðsögn framúrskarandi kennara.  Sú fullyrðing að kennaramenntun sé meðal hryggjarstykkja tónlistarháskóla er einnig nokkuð frjálsleg, því að tónlistarkennarnám er víðast hvar orðið að meistaranámi, þó að enn megi finna undantekningar á því líkt og í LHÍ.

Í ritgerðinni er oftsinnis vakin athygli á því að ekki sé starfrækt sinfóníuhljómsveit við tónlistardeild LHÍ og ekki árlegar óperusýningar líkt og tíðkast í TR og í niðurstöðukaflanum segir m.a. um hljóðfæranám á háskólastigi:

„Mikilvægur þáttur þess er að þau fái tækifæri til þess að leika í sinfóníuhljómsveit, taka þátt í óperuuppfærslum og spila í kammerhljómsveitum undir handleiðslu framúrskarandi listamanna.

Á undanförnum árum hefur tónlistardeild Listaháskólans ekki getað haldið úti starfsemi af þessu tagi og þess vegna hefur ekki verið vænlegur kostur fyrir efnilega hljóðfæranemendur að stunda þar nám.“ (bls 125)

Freyja virðist ekki gera sér grein fyrir því hversu marga hún lítilsvirðir með þessum orðum sínum, bæði kennara, sem margir eru samkennarar hennar við TR og almennt eru álitnir framúrskarandi listamenn og einnig alla þá hæfileikaríku nemendur sem hafa stundað nám við tónlistardeild LHÍ og eru nú meðal fremstu tónlistarmanna þjóðarinnar.

 

Það mætti eyða enn frekara púðri í hversu illa Freyju tekst að fela huglægt mat sitt á tónlistardeild LHÍ, en hér tel ég nóg komið, í bili a.m.k.

Tónlistardeild  LHÍ er alls ekki hafin yfir gagnrýni frekar en aðrar stofnanir, en sú gagnrýni verður að  vera studd einhverjum rökum, einhverjum staðreyndum, en ekki einvörðungu á tilfinningum, sögusögnum og gamaldags viðhorfum til tónlistarmenntunar.  Sú staðreynd að þessi skrif skuli birtast sem raundæmisrannsókn (e. case study) frá Háskóla Íslands gera þessar rangfærslur og ónákvæmni enn alvarlegri.

Í ljósi atburða síðustu mánaða er auðvelt að álykta að aðgerðaráætlun sem birt er í lok ritgerðarinnar hafi legið til grundvallar hugmyndum mennta- og menningarmálaráðherra um framtíð framhaldsnáms í tónlist, en þar má m.a. finna hugmyndina að stofnun eins framhaldsskóla í tónlist, samruna TR og tónlistarskóla FÍH, fullmótaða tónlistarbraut í samstarfi við MH og fleira í þeim dúr.

 

Það er afar mikilvægt að þeir sem taka ákvarðanir um framtíð tónlistarmenntunar skoði málin vandlega og í ljósi staðreynda um stöðu mála eins og hún er í dag. Þar sem Feyja Gunnlaugsdóttir setur fram í ritgerð sinni greiningu á stöðu framhaldsmenntunar í tónlist tel ég mikilvægt að hér komi fram að ekki er að að sjá að nein gögn liggi til grundvallar niðurstöðu hennar um námið í LHÍ.  Því geri ég alvarlegar athugasemdir við skrif Freyju.

 

 

Tryggvi M. Baldvinsson

Deildarforseti tónlistardeildar LHÍ