Dagana 29. og 30. janúar næstkomandi mun myndlistardeild Listaháskóla Íslands halda ráðstefnu undir yfirskriftinni “Athöfn- snúin afstaða til hlutarins”. Viðfangsefni ráðstefnunar er sú athöfn sem býr í listsköpunarferlinu og niðurstöðu þess.

Athöfnin sem hluti af listrænu sköpunarferli varð afgerandi þáttur listaverksins og listkenninga á seinni hluta 20 aldar. Verk og vinnuaðferðir listamanna eins og Jackson Pollock, Allan Kaprow, Hanna Wilke og Mary Kelly, svo nokkrir séu nefndir, settu athöfnina í nýtt og oft óvænt samhengi. Spurningar um ásetning, merkingu og afmörkun listrænnar athafnar frá öðrum meðvituðum athöfnum urðu að fræðilegu viðfangsefni og með tilkomu hreyfinga á borð við Fluxus, Naumhyggju og Land Art, varð hlutverk athafnarinnar jafnvel enn snúnara í ferli listrænnar sköpunar, og jafnframt áhugaverðara viðfangsefni.

Nú er lag að fjalla aftur um þennan þátt listrænnar sköpunar. Með tilkomu miðla eins og vídeólistar, internetsins, aðferðafræði þátttökulistar og póst stúdíó hugmynda, hefur hlutverk, merking, og aðferðafræðilegt samhengi athafna listamannsins tekið á sig fjölbreyttari myndir. Einnig vekur aukið vægi listrannsókna innan listaháskóla spurningar um hlutverk athafnarinnar í tengslum við listmiðilinn, í samhengi listaverksins, og í fræðilegri úrvinnslu.

Tekist verður á við hugmyndir um listræn sköpunarferli í fyrirlestrum og umræðum um verk og þemu þeirra listamanna sem þátt taka í ráðstefnunni. Ætlunin er að skoða aðferðafræði, sögu, fagurfræði, og almenna stöðu athafnarinnar í listsköpun samtímans.

Þátttakendur eru Bryndís H Snæbjörnsdóttir, gestaprófessor myndlistadeildar Listaháskóla Íslands, Frans Jacobi, prófessor á sviði gjörninga við Listaháskólann í Bergen, Johan Grimonprez, myndlistamaður með aðsetur í Brüssel, Ragnar Kjartansson, myndlistamaður með aðsetur í Reykjavík og Ulrika Ferm, prófessor fyrir staðbundna myndlist við Listaháskólann í Helsinki.