Á tónleikunum verða frumflutt ný verk eftir nemendur Atla Ingólfssonar í tónsmíðum við Listaháskóla Íslands, þá Daníel Helgason, Hrafnkel Flóka Kaktus Einarsson, Þorkel Nordal og Örnólf Eldon Þórsson.

Á tónleikunum eru dregnar upp hljóðmyndir ólíkra fyrirbæra á borð við nóttina, náttúruna og hið vélræna, þar sem upplifun okkar af þeim er smættuð niður í hljóðin ein. Á meðal annarra höfunda verka eru Salvatore Sciarrino, Taylan Susam, Sofia Gubaidulina, Horatiu Radulescu, Áshildur Haraldsdóttir og Yan Maresz. 

Hljóðön er metnaðarfull tónleikaröð í Hafnarborg tileinkuð tónlist frá 20. og 21. öldinni þar sem einstök hugmyndaauðgi og listræn glíma tónskálda leiða áheyrendur inn á áður ókunnar slóðir. Nafn tónleikaraðarinnar skírskotar til smæstu merkingargreinandi hljóðeininga tungumála, grunneininga sem púsla má ólíkt saman svo úr verði tilraun til merkingar. Hafnarborg efnir hér til tónleikaraðar þar sem ætlunin er að kynna ólík verk samtímatónskálda úr fremstu röð. Umsjónarmaður tónleikaraðarinnar er Þráinn Hjálmarsson.

Aðgöngumiðar eru seldir á midi.is og í afgreiðslu Hafnarborgar, á opnunartíma safnsins og klukkustund fyrir tónleika. Hægt er að panta miða í s. 585-5790. Almennt miðaverð er kr. 2500, fyrir eldri borgara og námsmenn kr. 1500.
Nemendur Listaháskóla Íslands fá ókeypis aðgang að tónleikunum.

Áshildur Haraldsdóttir nam flautuleik við Tónlistarskólann í Reykjavík og lauk síðan háskólaprófum frá The New England Conservatory of Music, Juilliard skólanum í New York og Konservatoríinu í París. Hún hefur unnið til verðlauna í fjórum alþjóðlegum tónlistarkeppnum og hljóðritað fimm einleiksgeisladiska. Auk þess að koma reglulega fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur hún leikið einleik með hljómsveitum í fjórum heimsálfum og komið fram í útvarpi og sjónvarpi í yfir 20 löndum. Áshildur hefur verið meðlimur í Sinfóníuhljómsveit Íslands frá 2004. Árið 2010 var Áshildur sæmd riddarakrossi hinnar Íslensku fálkaorðu fyrir störf sín á vettvangi íslenskrar tónlistar.

Helga Bryndís Magnúsdóttir lauk píanókennara- og einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1987 þar sem Jónas Ingimundarson var hennar aðalkennari. Framhaldsnám stundaði hún í Vínarborg og Helsinki. Helga Bryndís hefur haldið fjölda einleikstónleika, kammertónleika, leikið einleik með hljómsveitum, unnið með einsöngvurum, kammersveitum, kórum og er meðlimur í CAPUT hópnum. Hún hefur leikið inná geisladiska og gert upptökur fyrir útvarp og sjónvarp.