Anna María Bogadóttir arkitekt hefur verið ráðin sem aðjúnkt við námsbraut í arkitektúr við Listaháskóla Íslands. Við bjóðum hana kærlega velkomna til starfa.

Anna María er arkitekt og menningarfræðingur auk þess að hafa lokið M.Sc. gráðu í upplýsingatækni. Hún starfaði við menningar- og sýningastjórn í tæpan áratug áður en hún hélt til New York þar sem hún lauk meistaraprófi í arkitektúr frá Columbia University árið 2009. Hún hefur starfað á arkitekta- og borgarhönnunarstofum í New York, Miami og Reykjavík og er annar stofnenda stofunnar ÚRBANISTAN sem fæst við hönnun, ráðgjöf, rannsóknir og miðlun á sviði manngerðs umhverfis en var upphaflega sett á fót í kringum borgartilraunir árið 2004.

Anna María hefur ennfremur kennt og leiðbeint á BA og MA stigi undanfarinn áratug, bæði við Listaháskóla Íslands og Háskóla Íslands auk þess að hafa haldið fjölda fyrirlestra á sviði arkitektúrs, menningar og samfélagsrýni.