Moskvutvíæringurinn fyrir unga listamenn fer fram dagana 1. júlí - 10. ágúst. Þema tvíæringsins er "deep inside" sem er samsýning 87 listamanna frá 36 löndum. Sýningarstjóri er Nadim Samman, sem heimsótt hefur Listaháskólann og haldið fyrirlestra í myndlistardeild.

Fjórir útskrifaðir nemendur skólans voru valdir á meginsýningu tvíæringsins en það eru þau Claire Paugam, María Dalberg og Veronika Geiger, sem útskrifuðust allar úr meistaranámi nú í vor og Logi Leó Gunnarsson sem útskrifaðist af bakkalárstigi myndlistardeildar 2014.

Enginn listaháskóli á jafn marga þátttakendur á tvíæringnum og Listaháskóli Íslands.

Alþjóðlegi listatvíæringurinn fyrir unga listamenn í Moskvu er mjög virtur og er nú haldinn í fimmta sinn. Skipuleggjendur eru the National Center for Contemporary Arts (NCCA) og Nútímalistasafnið í Moskvu (MMOMA).

Alls verða 59 sýningar opnar gestum og á hliðardagskrá tvíæringsins eru 40 sýningar á dagskrá.

Vefsíða tvíæringsins