Megintilgangur námsmats er að veita nemendum upplýsingar um gengi
og árangur í námi. Einnig felst í því staðfesting skólans um að nemandi
hafi tileinkað sér þekkingu og færni á tilteknu sviði.

Próf og mat á verkefnum fer fram á námskeiðstíma eða á sérstökum
prófdögum í lok hverrar annar. Kennarar standa fyrir námsmati og eru
ábyrgir fyrir því, en hver deild ræður tilhögun prófa og verkefnaskila
innan marka þessara reglna.

Próf eru munnleg, skrifleg eða verkleg. Til verkefna teljast m.a.
ritgerðir, skýrslur, tónleikar, hvers konar listsköpunarverkefni og
rannsóknir tengdar þeim. Um samsetningu námsmats skal vera samráð á
milli deildarforseta og hlutaðeigandi kennara og ákvörðun kunngerð
nemendum í námskeiðslýsingu eigi síðar en við upphaf kennslu í
viðkomandi námskeiði.

Einkunnir eru í heilum og hálfum tölum frá 0 til 10. Lágmarkseinkunn
til að standast próf er einkunnin 5. Rektor gefur út samanburðarkvarða
til viðmiðunar fyrir kennara. Í námskeiðum, sem gefa 6 einingar eða
minna er deildarforseta heimilt að gefa leyfi fyrir að námsmat sé gefið
til kynna með bókstöfum í stað tölustafa : “S “ fyrir “staðist,” og
“F” fyrir “fall.”