„Ítrekaðar rannsóknir veita sífellt minni skilning, 
sífellt fleiri ljómanir.“1
 
„Ok mitt er sætt ok byrði mín er létt.“2
 
S
Amboð; hugmynd og hlutur í senn. Með því gref ég eftir óáþreifanlegum skilningi og tendra snertanlegar ljómanir. 
 
K
Ímyndun og afl. Tengslamyndandi lífskraftur sem ber í sér möguleika endaleysunnar. 
 
I
Tíminn er skynvilla frammi fyrir löturhægum þroska. Brúneygður hrafn flýgur með mig á vit hins lítt krumpaða heila. Hann færir mig frá vöðvaminni tungumálsins og þvingar mig til að skilja eftir öðrum perlum. 
 
L
Hversdagsleikinn er prisma, hann fangar tíruna og dreifir litum hennar á reiti leiksins. Teningur hefur sex jafnlíklega fleti en spilamennskan er hendingum háð. Einn leikmaður hefur trompin en annar hundana, rathundana. 
 
N
Stjarnan sem ég skar í hornhimnu augans varpar brotinni skuggamynd á sjónuna. Oddur í brotnu beini stingst í hold. Sætur niður í æðum, rjóðir vangar. Sláttur í lófa á bringu. Gollurshúsið—ósonlag hjartans.
 
I
Fram úr fingrum ávextir skynjunar.
 
N
Án listar á enginn svefnsama nótt.
 
G
Sítrónusúrt, mergbiturt, brimsalt en ljúfsætt ok kærleikans.
 
Sætubragð sársaukans rennur á tungunni og gælir við bragðlaukana. Teikningin, myndin, samanbrotin, krumpuð, ófullkomin, viðkvæm, vex innvortis.  Rafboð, boðefni, blóðkorn, kalsíum, salt, sykrur. Gangverkið þar sem einn lítill biti, horn, vektor, kubbur, stafur breytir öllu. 
 
R
Myndheimur minn er ölvaður af daglegu lífi, hversdagleikanum. Hann er á tilvistarlegum og fyrirbærafræðilegum nótum. Ég hef áhuga á hvernig lífsreynsla og áföll verða að uppsprettu skapandi krafta og leiks sem gefur tilgang í óstöðugri tilvist. 
 
I
Ég leita fanga víða, róta í minningum og fyrirboðum, les orðabækur, rýni í hugrenningatírur og gríp á lofti svipmyndir, sem sækja á þunnt eyrað um miðjar nætur. 
 
N
Teikning, í tvívíðum en einkum þrívíðum fleti er meginviðfangsefni mitt. Fjórða víddin, tíminn, er teygja sem heillar að toga í. 
 
N
Enn er tími fyrir sætan skilning og léttar ljómanir.