Mæna er tímarit um hönnun og arkitektúr og er gefið út og hannað af þriðja árs nemum í grafískri hönnun við Hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands.
 
Tímaritið kemur út einu sinni á ári að vori, en fyrsta tölublað Mænu  kom út árið 2010. Í Mænu birtast greinar og fræðilegar umfjallanir um hönnun, arkitektúr eða fræði sem tengjast hönnun og/eða arkitektúr á einn eða annan hátt.
 
Hvert blað er unnið út frá ákveðnu þema. Blaðinu er ætlað að vera vettvangur fyrir fræðimenn, hönnuði, arkitekta, sem og núverandi og fyrrverandi nemendur og starfsmenn skólans, til að stunda fræðilega umfjöllun um hönnunargrein sína og þau fræði sem henni tengjast. Þannig er leitast við að auka fræðilega, gagnrýna og þverfaglega umræðu um hönnun og arkitektúr á Íslandi og möguleika hennar í sinni víðustu mynd.
 
Mæna endurspeglar stefnu deildarinnar, þar sem leitast er við að gefa nemendum tækifæri á að tvinna fræðilegri hugsun og gagnrýni saman við skapandi hönnunarstarf, bæði með því að gefa nemendum kost á að skrifa greinar um eigin verk eða annarra í blaðið og með því að hanna blaðið sjálft frá grunni, með öllu sem því fylgir.
 
Mæna hefur frá upphafi verið unnin í samstarfi við prentsmiðjuna Odda og Gunnar Eggertsson ehf. pappírsinnflytjanda.

 

dora_illustration.jpg
 

 

 

 
Tímabil
2010 - 
 
Umsjón
Birna Geirfinnsdóttir
Bryndís Björgvinsdóttir
 
Þátttakendur
Nemendur á þriðja ári í grafískri hönnun.
 
Samstarfsaðilar
Prentsmiðjan Oddi
Gunnar Eggertsson ehf.