Um Uppbyggingarsjóð EES

Uppbyggingarsjóður EES er fjármagnaður af stjórnvöldum Noregs, Íslands og Liechtenstein. Markmið sjóðsins er að draga úr félagslegum og efnahagslegum ójöfnuði innan Evrópska efnahagssvæðisins og efla tvíhliða samstarf milli EFTA ríkjanna innan EES og fimmtán viðtökuríkja sjóðsins í Evrópu.Sjóðurinn stuðlar að umbótum og uppbyggingu í þeim aðildarríkjum ESB sem standa lakar í efnahagslegu tilliti. 

Viðtökuríki sjóðsins eru öll í Suður- og Austur-Evrópu: Búlgaría, Eistland, Grikkland, Kýpur, Lettland, Litháen, Malta, Portúgal, Pólland, Rúmenía, Slóvakía, Slóvenía, Króatía, Tékkland og Ungverjaland.

Sjóðurinn starfar samkvæmt sjö ára tímabilum en samningur við ESB um Uppbyggingarsjóð EES fyrir tímabilið 2014-2021 (framkvæmdatími til 2024) var undirritaður þann 3. maí 2016. Samningurinn kveður á um að heildarframlag EFTA ríkjanna innan EES fyrir tímabilið skuli nema 1.584,1 milljónum evra. Ísland stendur að jafnaði straum af um 3-4% af heildarframlagi ríkjanna.

Hvert viðtökuríki sjóðsins setur fram og rekur sína áætlun um þátttöku í sjóðnum. Það þýðir að formlega verða fyrirtæki og stofnanir í þessum löndum að vera í forsvari fyrir umsókn um styrk til stjórnvalda í sínu landi. Í samræmi við stefnuskrá sjóðsins eru að jafnaði skilyrði fyrir styrkveitingu að verkefnið sé a.m.k. tvíhliða, þ.e. með þátttöku lögaðila frá Íslandi, Noregi og/eða Liechtenstein. Tekið skal fram að kostnaður þátttakenda frá EFTA ríkjum er greiddur í samræmi við þátt þeirra í verkefnunum og verðlag í viðkomandi ríki.

 

Sjóðurinn starfar samkvæmt fimm áherslusviðum:

  • Nýsköpun, rannsóknir, menntun og samkeppnishæfni

  • Samfélagsleg þátttaka, atvinnuþátttaka ungmenna og bættar aðstæður fátækra

  • Umhverfis- og orkumál, samdráttur skaðlegra lofttegunda og minnkun loftlagsbreytinga

  • Menning og listir, frjáls félagasamtök, bættir stjórnunarhættir og grundvallarréttindi

  • Innanríkis- og dómsmál