Útskriftartónleikar Kristínar Jónu Bragadóttur fara fram í Salnum Kópavogi, 2. maí kl. 20:00. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir. Tónleikarnir eru hluti af útskriftarhátíð LHÍ 2017. 

Kristín Jóna hóf nám á klarínettu 7 ára gömul við Skólahljómsveit Vesturbæjar undir handleiðslu Berglindar M. Jóhannsdóttur og Gríms Helgasonar. Hún stundaði nám frá árinu 2004 við Tónlistarskóla Seltjarnarness þar sem kennarar hennar voru Anne Benassi og Helga Björg Arnardóttir en árið 2007 hóf hún nám við Tónlistarskólann í Reykjavík, fyrst hjá Óskari Ingólfssyni en frá árinu 2009 hjá Sigurði I. Snorrasyni. Undir hans leiðsögn lauk Kristín framhaldsprófi vorið 2013 og 8. stigi vorið 2014.

Á haustönn 2014 sótti Kristín einkatíma til Einars Jóhannessonar og í upphafi árs 2015 hóf hún nám við Listaháskóla Íslands undir handleiðslu hans, samhliða því sem hún lauk burtfararprófi vorið 2015 frá Tónlistarskólanum í Reykjavík. 
Frá árinu 2013 hefur Kristín einnig stundað nám á hærri hljóðfæri klarínettufjölskyldunnar og upprunalega gerð hljóðfærisins frá fyrri hluta 18. aldar undir leiðsögn Sigurðar. 

Kristín hefur sótt fjölda einkatíma og masterklassa, bæði innanlands og erlendis, m.a. hjá Arngunni Árnadóttur, Ármanni Helgasyni, Hans Colbers, Stefan Schilling, Barnaby Robson, Ab Vos, Céleste Zewald, Ronald og Robert Šebesta og Zsolt Szatmári. 
Þá hefur Kristín leikið með ýmsum hljómsveitum á borð við Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Sinfóníuhljómsveit unga fólksins auk fjölda kammersveita og smærri hópa.

Frá hausti 2013 hefur Kristín, samhliða námi sínu, kennt á klarínettu við Tónlistarskóla Garðabæjar.

Meðleikarar og allir aðrir flytjendur:

Aladár Rácz, píanó 
Iðunn Kristínardóttir, b-klarínetta 
Sigurður I. Snorrason, bassethorn 
Kristín Þóra Pétursdóttir, bassaklarínetta

Efnisskrá: 

C. M. von Weber (1786-1826) 
Grand Duo Concertant, Op. 48 
I. Allegro con fuoco 
II. Andante con moto 
III. Rondo, Allegro

Barnaby Robson (1972-) og Malcolm Lindsay (1959-) 
Watkins, fyrir klarínettu, raddir og rafhljóð

F. Poulenc (1899-1963) 
Sónata fyrir klarínettu og píanó, Op. 184 
I. Allegro tristamente 
II. Romanza 
III. Allegro con fuoco

Þorkell Sigurbjörnsson (1938-2013) 
Kveðja

A. Piazzolla (1921-1992) 
Four for Tango