Essið: Ræktun jákvæðrar sjálfsmyndar á umrótatímum

Áhrif dagbókarskrifa á unglingsstelpur í hópastarfi í félagsmiðstöð 
og þróun námsefnis því tengdu 

 
Við lok grunnskólans eiga nemendur að standast mjög háleit hæfniviðmið um sjálfsþekkingu og jákvæða sjálfsmynd. Í þessu verkefni segi ég frá þeim leiðum sem ég hef beitt í sértæku hópastarfi í félagsmiðstöð í Reykjavík til að vinna með uppbyggingu sjálfstrausts hjá stelpum í 10. bekk. Hópurinn heitir Essið og var starfræktur á vorönn 2019 undir stjórn minni og Brynju Helgadóttur, tómstunda- og félagsmálafræðings.
 
Þær aðferðir sem ég notaði í verkefninu byggja á persónulegri reynslu minni af breyttu sjálfsmati með hugarfarsbreytingu, dagbókarskrifum og skapandi vinnu. Ég studdist við rannsóknir sálfræðinga á gagnsemi skrifa í sálfræðimeðferðum unglinga. Þessar aðferðir vildi ég prófa með hóp sem er á miklum krossgötum í lífi sínu, á leið úr grunnskóla í menntaskóla. Ég tala um gildi lífsleiknináms í samfélaginu, innan skóla og í frístundastarfi. Einnig fjalla ég um hugtök eins og sjálfið og sjálfsmildi í samhengi við ungt fólk og þetta verkefni.
 
Félagsmiðstöðvar og það starf sem fer fram innan þeirra er hluti af heildstæðu námi barna og unglinga. Í hópastarfinu Essinu prófaði ég verkefni sem ég samdi með það að markmiði að deila útkomunni í kennsluleiðbeiningum fyrir aðra sem vilja leiða svipað starf. Þær leiðbeiningar heita einnig Essið.
 
Framgang hópastarfsins og persónulegan ávinning stelpnanna mældi ég með þremur spurningalistum yfir tímabilið sem ég greindi jafnóðum. Þar kom í ljós að allar sem voru virkar í hópnum og unnu verkefnin með okkur fundu fyrir jákvæðum áhrifum við að skrifa í dagbók og mæta á fundina í hópastarfinu. Þær sem tóku þátt voru svo ánægðar með starfið að við ákváðum að lengja það fram að útskrift þeirra.
 
Verkefnið er því í raun þríþætt, hópastarfið þar sem verkefnin voru prófuð og ávinningur kannaður, kennsluleiðbeiningar fyrir Essið og lokaritgerð því til rökstuðnings. 
 
 
Ég heiti Kristín Dóra Ólafsdóttir og er myndlistarkona, frístundaráðgjafi í félagsmiðstöð og listkennari. Mín helstu umfjöllunarefni á þessum sviðum er sjálfsmildi, sjálfstraust og jákvæð sjálfsmynd. Ég hef unnið þvert á sviðin mín með þessi efni þar sem þau eiga við alla. 
 
Ég fór beint eftir BA í myndlist í MA í listkennslufræði í LHÍ. Þar gat ég tengt áhuga minn á listum og fólki sem myndlistarmaður og starfsmaður í félagsmiðstöð.
 
Það kom mér skemmtilega á óvart hversu fljótt ég gat notað námið í vinnunni minni. Útskriftarverkefnið mitt vann ég tengt félagsmiðstöðinni því þar fer fram heilmikið nám sem má ekki gleyma. 

 

KristínDóra.jpg
Ljósmyndari: Kristinn Ingvarsson
 
Kristín Dóra Ólafsdóttir
2019
kridola [at] gmail.com
kristindora.com
Leiðbeinandi: Gréta Mjöll Bjarnadóttir