Uppbygging náms 

Á fyrsta námsári munu nemendur vinna í teymum að æfingaverkefnum þar sem hver og einn mun fá tækifæri til að skrifa handrit, leikstýra og klippa og sinna fjölbreyttum hlutverkum í teyminu. Markmiðið er að nemandinn öðlist breiðan skilning á grundvallaratriðum kvikmyndalistar og þjálfi hæfni til að segja sögu á myndrænu formi. Við lok fyrstu annar munu nemendur gera stutta mynd án tals og við lok annarrar annar lengri mynd með tali. Á fyrsta ári er megináhersla lögð á grundvallaratriði handritsgerðar og leikstjórnar stuttmynda auk námskeiða í framleiðslu, leiklist, kvikmyndasögu og fagurfræði. Einnig verður farið yfir lykilatriði skapandi og tæknilegrar aðferðafræði kvikmyndagerðar. 
 
Á öðru ári munu nemendur kafa dýpra í möguleika listformsins og hlutverk sitt í samhengi kvikmyndgerðar í áframhaldandi teymisvinnu á sama tíma og námið tekur í auknum mæli mið af áherslufaggrein (s.s. leikstjórn, handritsgerð, framleiðslu, kvikmyndatöku, klippingu, hljóðtækni). Námið á öðru ári er að hluta til byggt upp líkt og framleiðsluferli kvikmynda - þróunarvinna, undirbúningur framleiðslu, framleiðsla og eftirvinnsla - þar sem hver og einn nemandi, með stuðningi samnemenda, skrifar og leikstýrir eigin stuttmynd. Þetta vinnuferli er stutt með fræðilegum námskeiðum og áframhaldandi þjálfun í lykilatriðum skapandi og tæknilegrar aðferðafræði kvikmyndagerðar. Nemendur kynnast því hvernig lykil faggreinar kvikmyndagerðar vinna saman hvernig samspil þeirra þjónar kvikmyndaverkefninu og þeirri sögu sem leitast er við að miðla. 
 
Á þriðja ári gefst nemendum kostur á að hafa mótandi áhrif á námið með því að velja sér eina eftirfarandi leiða sem þjónar markmiðum nemandans best; sjálfstætt verkefni, starfsnám hérlendis eða námsdvöl erlendis. Nemendur munu einnig ljúka fræðilegum hluta námsins sem allan námstímann miðar að þjálfun hugarfars rannsakandans með virkri ígrundun um verkefni, vinnuaðferðir, listræna sýn og miðlun í listrænu og fræðilegu samhengi. Á lokaárinu vinna nemendur í auknum mæli innan sinnar áherslu faggreinar og munu þeir vinna saman að útskriftarverkefni í formi stuttmyndar eða kvikmyndahandrits í fullri lengd. 
 

HEILDARHÆFNIVIÐMIÐ BA NÁMS Í KVIKMYNDAGERР  

Þekking  

Við útskrift býr nemandi yfir þekkingu innan faggreinar eða starfsgreinar. Í því felst að nemandi: 
 • Hafi öðlast almenna þekkingu á lykilatriðum skapandi og tæknilegrar aðferðafræði kvikmyndagerðar. 
 • Hafi öðlast almennan skilning á helstu kenningum, aðferðum og hugtökum kvikmyndalistar. 
 • Hafi aflað sér greinagóðrar fagþekkingar í áherslufaggrein.
 • Þekki nýjustu tækni og aðferðir í kvikmyndagerð.  
 • Hafi öðlast þekkingu á heimildaleit og hvernig unnið með upplýsingar á gagnrýninn hátt. 
 • Hafi öðlast almennan skilning á siðferðilegum álitamálum sem tengjast fagsviði og samtíma.  
 • Hafi skilning á mikilvægi góðra samskipta og samvinnu í kvikmyndaverkefnum. 

Leikni  

Við útskrift getur nemandi beitt aðferðum og verklagi faggreinar eða starfsgreinar. Í því felst að nemandi: 
 • Geti notað viðeigandi aðferðir, tækja- og hugbúnað skapandi og tæknilegrar aðferðafræði kvikmyndagerðar. 
 • Geti beitt sértækum aðferðum, tækja og hugbúnaði í áherslufaggrein. 
 • Hafi tileinkað sér skapandi og gagnrýna hugsun. 
 • Geti kynnt og rökstutt ákvarðanir og sett í samhengi á faglegum grunni. 
 • Hafi tamið sér áræðanleg, ábyrg og skapandi viinnubrögð 
 • Geta unnið að sameiginlegum markmiðum með góð samskipti og virðingu að leiðarljósi. 

Hæfni   

Við útskrift getur nemandi hagnýtt þekkingu sína og leikni í starfi og/eða frekara námi. Í því felst að nemandi: 
 • Geti nýtt almenna þekkingu, leikni og aðferðafræði sem þeir hafa öðlast í helstu skapandi og tæknilegu greinum kvikmyndagerðar. 
 • Geti nýtt sérþekkingu og aðferðir áherslufaggreinar með listrænum og hagnýtum hætti og miðlað í kvikmyndaverkefnum. 
 • Geti miðlað eigin listrænusýn í kvikmyndaverkefnum. 
 • Geti tekið virkan þátt í samstarfi með samnemendum og samstarfsfólki.  
 • Geti unnið sjálfstætt, sett sér markmið, gert verkáætlun og fylgt henni. 
 • Geti fjallað um eigin verk og annarra á faglegum grunni. 
 • Geti átt frumkvæði að verkefnum og  leitt í samstarfi við aðra.   
 • Hafi þróað með sér nauðsynlega námshæfni og sjálfstæð vinnubrögð fyrir  frekara nám eða störf á fagsviði sínu.