Við lifum á tímum „Mannaldar“ (e. Anthropocene) sem vísar í að neikvæð áhrif manna á jörðina mælist núna á skala við náttúruhamfarir fyrri alda. Áhrifin eru af slíkri stærðargráðu að þau eru orðin óafturkræf og engin lausn er í sjónmáli. Í verkum mínum velti ég fyrir mér þeim ómöguleika sem felst í því að lifa á Mannöld, en einnig möguleikanum sem felst í því ómögulega. 
Allt veraldlegt efni býr yfir möguleika á umbreytingu frá einu formi í annað þar sem saga þess er framlengd um eina lífstíð í hringrás óendanlegra lífstíða. Þessu ferli umbreytingar er hægt að stýra í margar áttir með ólíkum útkomum og hvort ein sé yfir aðra hafin er erfitt að segja til um. Allt gengur í hringi—þar sem er endastöð eins er byrjunarreitur annars.
Ég velti fyrir mér hvað það er sem ákvarðar gildi í augum manna, en við virðumst hafa fyrirfram mótaðar og rótgrónar hugmyndir um hvað er verðmætt og hvað er rusl. Ég vil brjóta upp þessar hugmyndir og sýna fram á þá afstöðu sem við getum tekið, að virða allt efni að jöfnu líkt og það væri í grunninn gert úr sömu frumeindum.