Íþróttalist - Samspil íþrótta og lista á grunnskólastigi

 

Íþróttalist er nýsköpunarverkefni inni í íslensku skólakerfi.
 
Í verkefninu er lagt upp með að mynda hugrenningatengsl milli íþrótta og lista með það að markmiði að uppræta aðgreiningu þessara tveggja heilsueflandi faga.
 
Í íþróttalist er gengið út frá því að dýpri skilningur á eigin möguleikum, samspili líkamlegs atgervis og sköpunarkrafts og kennsla á jafningjagrundvelli séu leiðir að sjálfsþekkingu og sjálfstyrkingu þar sem nemendur geti tileinkað sér aðferðir listsköpunar í hvaða aðstæðum sem er, einnig í samhengi við íþróttir og hreyfingu.
 
Rannsóknin felur í sér tilraunakennslu til þróunar á kennsluháttum og námsefni fyrir íþróttalist. Til grundvallar rannsókninni lágu drög að námsefni sem skrifuð voru sumarið 2021 og áður en rannsóknin hófst voru þau þróuð áfram fyrir tilraunakennslu. Fyrir liggja kennsluáætlanir með leiðbeiningum um námsmat og greining á tilraunakennslu efnisins. Áhersla var lögð á upplifun nemenda í kennslunni þar sem verkefni voru lögð fyrir en gert ráð fyrir að nemendur hefðu rými til að nálgast verkefnin á eigin forsendum og gera þau að sínum.
 
Niðurstöður byggja á athugunum í kennslustundum, samtali við nemendur í lok hverrar kennslustundar, sjálfsmati og rýnihópsviðtölum við nemendur. Rannsóknin gefur vísbendingar um að kennsluhættir íþróttalistar geti verið aðferð nemenda til sjálfstyrkingar og til að efla líkamsvitund, og að þróttalist geti verið leið til að opna huga nemenda fyrir því að tjáning og sköpun geta átt sér stað hvar sem er og hvenær sem er.
 
Íþróttalist er kynnt til leiks sem aðferð til tjáningar gegnum sköpun og fágaða líkamsvitund. Niðurstöðurnar gefa vísbendingu um að íþróttalist geti verið leið að þessu markmiði, og að hún eigi erindi inn í skólakerfið á þeim forsendum.
 
5._karna_sigurdardottir_infokarna.is-5.jpg

Mynd: Owen Fiene

 

Karna Sigurðardóttir
info [at] karna.is
karna.is
Leiðbeinandi: Ellen Gunnarsdóttir
30 ECTS
Útskriftarár: 2022