Áherslur í tónlistarnámi

Hvaða grunngildi og áherslur ættu að liggja til grundvallar í næstu aðalnámskrá tónlistarskóla

 

Núverandi aðalnámskrá tónlistarskóla er 22 ára gömul, elsta núgildandi námskráin í skólakerfinu á Íslandi, og hefur aldrei verið endurskoðuð.
 
Aðalmarkmið þessarar rannsóknar er að safna saman upplýsingum um hin ýmsu gildi, áherslur og sjónarmið sem hafa þarf í huga við þróun nýrrar námskrár í tónlist á Íslandi.
 
Almenn grunngildi náms eru skoðuð og sett í samhengi við gildi og áherslur í tónlistarnámi. Hugtakið gæðanám, sjónarmið um jöfn tækifæri til náms og skóla án aðgreiningar eru skoðuð, auk þess sem menntastefna Íslands til ársins 2030 er skoðuð. Einnig er umfjöllun um nýja finnska námskrá í tónlist auk þess sem rannsakandi fjallar um námsmat í tónlistarskólum frá ýmsum hliðum og setur í samhengi við umfjöllun um námsmat í menntavísindum almennt.
 
Fyrirbærin áhugahvöt og áhugi eru skoðuð og sett í samhengi við áherslur í tónlistarnámi, auk þess sem nýjar leiðir til framhaldsnáms í tónlist eru skoðaðar og settar í samhengi við umræðu um stíla og stefnur tónlistar innan tónlistarskólanna.
 
Við upplýsingaöflun fyrir þessa rannsókn notaðist rannsakandi við aðferðafræði eigindlegra rannsókna þar sem hálfopin viðtöl og spurningalistar með opnum spurningum voru notuð til að ná fram sjónarmiðum víðs hóps. Tekin voru 20 viðtöl, auk þess sem svör við spurningalistum fengust frá á fimmta tug tónlistarnemenda.
 
Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að víkka þurfi þau gildi sem liggi til grundvallar í tónlistarnámi, auk þess sem næsta námskrá þurfi að innihalda fleiri og fjölbreyttari markmið. Einnig kemur fram að þörf sé á fjölbreyttara námsmati í tónlistarnámi og að samræming í tónlistarnámi sé ekki alltaf góður kostur.
 
Tónlistarnám þurfi að miða meira að því að nemendur geti spilað sér til gagns og gamans, auk þess að meiri áherslu þurfi að leggja á einstaklingsmiðað nám sem sé opnara hvað áherslur og mismunandi stíla tónlistar varðar. Fram kemur að þörf sé á breyttum áherslum í tónfræðikennslu barna og unglinga og bent er á mikilvægi þess að næsta námskrá verði lifandi plagg sem sé opin fyrir breytingum og þróun. Einnig kemur fram að núverandi kerfi passi ekki lengur inn í skólakerfið á Íslandi.
 
Þannig telur rannsakandi að fjölmargar ástæður fyrir gerð nýrrar aðalnámskrár tónlistarskóla hafi komið fram og vonast til að þessi rannsókn muni koma að góðum notum við gerð hennar.
 
 
joi_haus.jpg
 
Jóhann Ingi Benediktsson
joigitar [at] gmail.com
Leiðbeinandi: Elín Anna Ísaksdóttir
30 ECTS
Tónlistardeild