Fyrir hverja er námskeiðið: Námskeiðið er opið fólki með myndlistarmenntun sem vill sækja sér símenntun. Skyldunámskeið í BA námi í myndlist. 
 
Í námskeiðinu er fjallað um myndlist á Íslandi fram að sjöunda áratugi síðustu aldar. Hugað er að listiðkun fyrri tíma og hvernig jarðvegur fyrir íslenska nútímamyndlist varð til smám saman með borgaralegum listhugmyndum, listasöfnum, styttum í opinberu rými, listkennslu, ljósmyndun og listvinafélagi. Fjallað er um listsköpun frumherjanna í samhengi þjóðfélagshræringa við upphaf 20. aldar og hugað að nýjum kynslóðum listamanna sem síðar komu fram á sjónarsviðið. Skoðuð eru viðfangsefni og miðlar sem höfðuðu helst til íslenskra myndlistarmanna og með hvaða hætti áhrif frá erlendum liststefnum og hugmyndum birtast í verkum þeirra. Velt er upp spurningum um hvort listsköpun hér á landi á fyrri hluta 20. aldar hafi snúist meira eða minna um landslagstúlkun eða hvort önnur sjónarmið hafi legið henni til grundvallar. Greindar eru forsendur óhlutbundinna verka og viðtökur þeirra hér á landi. Skrif listamanna um verk sín og annarra í eigin samtíma eru könnuð en einnig eru dæmi tekin um hvernig myndlistarmenn og listfræðingar síðari tíma hafa unnið með íslenska myndlistararfleifð og þannig leitast við að varpa ljósi á gildi íslenskrar listasögu á líðandi stund.
 
Í lok námskeiðsins eiga nemendur að:
  • hafa innsýn í listsköpun fyrri alda á Íslandi,
  • hafa skilning á innlendum jafnt sem erlendum forsendum íslenskrar nútímalistasögu,
  • kunna góð skil á sérkennum helstu listhreyfinga tímabilsins, listamönnum og verkum þeirra,
  • geta beitt helstu listhugtökum tímabilsins af öryggi,
  • geti beitt innsæi og gagnrýnum aðferðum við greiningu á íslenskri listasögu,
  • geta sett eigin listsköpun og hugmyndir í samhengi við íslenska myndlist fyrri tíma,
  • geta aflað sér heimilda á sjálfstæðan hátt og beitt þekkingu sinni og skilningi við úrlausn verkefna.
Námsmat: Skrifleg og verkleg einstaklings- og hópverkefni
Kennari: Anna Jóhannsdóttir 
Staður og stund: Laugarnes, mánudaga, kl. 10:30 - 12:10
Tímabil: 31. ágúst - 9. nóvember, 2020
Forkröfur: BA gráða eða sambærilegt nám
Einingar: 4 ECTS
 
Kjósi nemendur að taka námskeið án eininga gefur kennari verkefnum nemenda ekki endurgjöf. Verðmunur ræðst þ.a.l. af auknu vinnuálagi kennara.
Námskeið sem tekin eru án eininga geta þó skráðst, án eininga, á námsferil nemenda.
Verð: 49.000 kr. (án eininga) / 61.200 kr. (með einingum)
Umsækjendur eru vinsamlegast beðnir að athuga að vegna COVID-19 þá gæti námskeiðið breyst fyrirvaralítið í fjarkennslu að hluta til eða alveg. 
Nánari upplýsingar: Sindri Leifsson, verkefnastjóri myndlistardeildar: sindrileifsson [at] lhi.is