Eitt af markmiðum Styrktarsjóðs Halldór Hansen er að styrkja uppbyggingu og styðja við tónlistarsafn Listaháskóla Íslands. Það hefur sjóðurinn gert með því að veita árlega styrki úr honum til bókasafns skólans til innkaupa á efni fyrir safnið.

Allt efni sem keypt hefur verið inn er skráð og aðgengilegt á leitir.is. Árni Heimir Ingólfsson, varamaður í stjórn Styrktarsjóðs Halldórs Hansen, hefur unnið að tillögum um innkaup í samvinnu við forstöðumann bókasafns. Fyrsti styrkurinn var veittur árið 2004 á sama tíma og styrkir til tónlistarnemenda voru veittir í fyrsta sinn og hefur hann nú verið veittur árlega síðan.

Árið 2005 var styrkupphæðin 8.000.000 sem notuð var til innkaupa á heildarverkum helstu klassísku tónskálda heims, s.s. Bach, Beethoveen Mozart og Handel. Einnig var mikið keypt af nótum og raddskrám.

Árið 2006 var veittur 2.100.000 króna styrkur sem nýttur var til innkaupa á bókum frá helsu bókaútgáfum á sviði tónlistar. Reynt var að haga valinu þannig að það endurspeglaði sem mesta breidd innan tónlistargeirans. Áhersla var lögð á ævisögur tónskálda og flytjenda tónlistar, sögu tónlistarforma eða tímabila, bækur um einstök verk eða verkflokka, greiningar á verkum, heimstónlist, kvikmyndatónlist, djass og dægurtónlist.

Árið 2007 var veittur styrkir upp á 5.000.000 kr. og var innkaupum hagað þannig að nótur og bækur voru keyptar í bland.

Fyrir árið 2008 var veittur styrkur að upphæð 4.000.000 kr. Nótur nútímatónskálda voru keyptar inn.

Á fundi stjórnar í Styrktarsjóði Halldórs Hansen vorið 2012 var ákveðið að setja kr. 750.000 til kaupa á tónlistarefni til uppbyggingar bókasafns tónlistardeildar skólans.

Innkaup eru í samráði við deildarforseta og fagstjóra tónlistardeildar auk tónlistarfræðingsins Árna Heimis Ingólfssonar, sem situr í stjórn sjóðsins og hefur haft yfirumsjón með innkaupum á vegum hans frá því hann var stofnaður.