Ingibjörg Fríða er tónlistarkona með fjölbreyttan bakgrunn. Hún hóf ung tónlistarnám við Tónlistarskóla Garðabæjar og klassískt söngnám tólf ára gömul. Hún lauk framhaldsprófi tvítug og sneri sér þá að jazzsöng á jazz og rokkbraut við Tónlistarskóla F.Í.H. Hún lauk burtfararprófi þaðan vorið 2014. Samhliða því námi hóf hún einnig nám í skapandi tónlistarmiðlun við Listaháskóla Íslands haustið 2013. Í því námi hefur Ingibjörg fengið mikla þjálfun í spuna og hóptónsmíðum ásamt þjálfun í að leiða ólíka hópa í tónlistarvinnusmiðjum. Sumarið 2015 vann hún, ásamt tveimur öðrum nemendum úr tónlistardeild LHÍ, að rannsókn þar sem hugmyndir fólks um íslenskan hljóðheim voru til skoðunar með þátttöku fólks í tónlistarvinnusmiðjum. Haustið 2015 flutti Ingibjörg til Helsinki og stundaði nám í eina önn við jazz-, tónlistarkennslu- og þjóðlagadeild Sibeliusarakademíunnar. Aðalkennarar hennar í Listaháksólanum hafa verið Sigurður Halldórsson, Gunnar Benediktsson og Kjartan Valdemarsson.
 
Útskriftarverkefni mitt hringast um röddina og mismunandi blæbrigði hennar.
 
Í lokaritgerð greindi ég plötu með listakonunni Meredith Monk með tilliti til víkkaðrar raddtækni (e. extended vocal technique). Þetta voru tvenns konar greiningar, annarsvegar fræðileg greining og hins vegar persónuleg greining útfrá samskynjun. Ég hefur  undanfarin misseri rannsakað eigin samskynjun (synthesia) sem lýsir sér í sjónrænni skynupplifun af tónlist, í formi lita, forma og áferðar. Sú greining leiddi af sér sextán litlar myndir sem túlka það sem ég sé fyrir mér þegar ég hlusta á tónlistina. 
 
Í lokaverkefni langaði mig að nálgast röddina og spuna frá tveimur hliðum,  sem mentor annars vegar og hins vegar útfrá eigin listrænu vinnu. Frá því í janúar hef ég haldið spunavinnusmiðjur fyrir söngnemendur í Tónlistarskóla Garðabæjar. Ég hef einnig unnið að tónlist með tónlistarkonunni Ragnheiði Gröndal, þar sem við höfum prófað okkur áfram með mismunandi blæbrigði og hljóðeiginleika raddarinnar. 
 
Litlu myndirnar út ritgerðinni notaði ég svo áfram til að sameina þetta tvennt og hélt stóra vinnusmiðju í tónsmíða- og spunavinnu með söngnemendunum og Ragnheiði. Myndirnar urðu þá innblástur nýrra verka. Með þessari aðferð urðu til tónverk undir óbeinum áhrifum frá Meredith Monk, í gegnum mína samskynjun.