Kl. 13.00–14.00 Stofa 54 (3. mars) (IS)
Bjarki Bragason
Anna Líndal
Hildigunnur Birgisdóttir
Bryndís Snæbjörnsdóttir 
Í málstofunni ræða myndlistarmennirnir um samhengi og verk á sýningunni Infinite Next, sem átti sér stað í Nýlistasafninu sumarið 2016. Verkin á sýningunni fjölluðu á ólíkan máta um kerfi sem öll samfélög samtímans glíma við; hagkerfi síð-kapítalismans, hnignun vistkerfa, tilraunir mannsins til þess að hafa áhrif á virkni þeirra, þekkingarframleiðslu, söfnun upplýsinga og áhrifa mannsins í umhverfinu. Auk þeirra tóku Mark Wilson, Pilvi Takala og Amy Howden-Chapman þátt í sýningunni. 
 
Infinite Next var í senn rannsóknarverkefni og sýning sem Anna Líndal og Bjarki Bragason stýrðu. Verkefnið hófst með ferð listamannanna tveggja til Grænlands sumarið 2015 þar sem þau tóku þátt í leiðangri og rannsóknum jarðvísindamanna á loftslagi og bráðnun Grænlandsjökls, ásamt því að taka þátt í loftslagsráðstefnunni Ilulissat Climate Days. Verkefni þeirra á Grænlandi hverfðist um spurningar tengdar loftslagsbreytingum, og unnu listamennirnir með þá staðreynd að frá því að landbúnaður hófst, og með iðnbyltingunni sem átti sér stað á milli 1760 og 1820-40, hefur maðurinn orðið að jarðfræðilegu afli, áhrif menningarinnar á jörðina tóku að marka dýpri spor og valda breytingu á náttúrulegum ferlum. Í dag birtast áhrifin í loftslagsbreytingum, sem þó er illsýnilegt fyrirbæri í heild sinni, heldur birtist það brotakennt í öllum hlutum: sem ójafnvægi í lífríki, hitabylgjur og rigning, sem breyting á öllum aðstæðum og framtíðarhorfum mannkyns.
 
Nýlega í veraldarsögunni hefur menningunni tekist að framleiða afurðir sem halda áfram að hafa áhrif tugþúsundum ára eftir að framleiðsla þeirra eða notkun átti sér stað. Með verkefninu fjölluðu listamennirnir um samhengi þessara árekstra í tíma með ólíkum verkum sem spönnuðu svæði allt frá Disneylandi, Waldentjörn Thoreau, steingerðrar mengunnar, leifar af þekkingarsköpun til endurhæfingarferli ránfugla og óvæntra breytinga í umhverfinu. 
infinite_next.jpg
Bjarki Bragason, Ten Thousand and One Years, 2016