IEVA GRIGELIONYTÉ
BA Myndlist 2017
HTTPS://IEVA.MYPORTFOLIO.COM/

 

Verkið „Dry Language“ er vísir að samskiptakerfi. Verkið reiðir sig á ákveðnar reglur og virðist hafa orðið til úr myndum af þvottagrindum. Tilgangur þess er að hvetja áhorfendur til þess að velta fyrir sér vægi tungumálsins í lífi okkar, en oft virðumst við gleyma hversu flókin og margbrotin tungumál eru. Ég byggi hugmyndina á því að um leið að við verðum altalandi á okkar móðurmáli gleymum við í raun tilvist tungumálsins. Tungumál er hluti af okkar daglega lífi, hvort sem að við eigum samræður við annað fólk, lesum blöðin, eða hugsum. En hversu oft veltum við uppbyggingu tungumálsins fyrir okkur? Á sama hátt og vinnsla líffærakerfa okkar á það til að hverfa úr meðvitundinni notum við tungumál ómeðvitað. Það er, við lesum skilti og tölum við mæður okkar á sama hátt og hjörtu okkar slá — án þess að hugsa. Við tökum ekki eftir tungumálinu, eða hjartslætti okkar, fyrr en að eitthvað klikkar, til dæmis þegar orð er vitlaust stafsett eða við munum ekki merkingu þess.

Ég ákvað að nálgast viðfangsefnið frá öfugum enda og einbeita mér að stöfunum sjálfum í stað orða og merkingu þeirra. Ég hóf að skilgreina stafina út frá fyrirfram settum reglum, og lærði svo merkingu þeirra með því að móta þá í efni. Sú hugmynd á uppruna sinn í aðferð sem notuð er til þess að kenna lesblindum börnum stafrófið. Þeim er kennt að að móta stafina í leir á meðan þau gefa frá sér það hljóð sem hver stafur stendur fyrir. Aðferðin tvinnir því formum saman við munnlega þáttinn, sem veldur því að auðveldara er fyrir börnin að læra stafina.

Ég ákvað að logsjóða verkin vegna þess að það minnti mig á fíngerðar hreyfingar eins og að sauma eða handskrifa. Að lokum stilli ég verkunum upp á svipaðan hátt og stöfum er raðað saman í orð. Það tengist einnig fyrri hugmyndum mínum varðandi „object choreography“, ferli sem svipar einnig til uppbyggingu tungumála.