Hugarflug 2022 - Enginn er eyland

Opnunarávarp rektors Listaháskóla Íslands
Fríða Björk Ingvarsdóttir

 
Kæru gestir, verið þið hjartanlega velkomin til okkar hér í Laugarnesið, á fyrri Hugarflugsráðstefnu þessa vetrar.
Enginn er Eyland - Collective Care. Viðfangsefni Hugaflugs þetta árið er hreint ekki lítilvægt. Þvert á móti er öll heimsmynd samtímans undir. Í dag og á morgun verða gerðar tilraunir til að skilgreina, rannsaka og fara dýpra ofan í saumana á því hvað það er sem knýr þessa heimsmynd áfram, mótar hana og slípar. Sameiginlegt þema flestra rannsakenda ráðstefnunnar er hlutdeild ólíkra þátta í slíku ferli, hvort sem um er að ræða einstaklinga, hugmyndafræði eða athafnir daglegs lífs - í listum sem öðru.
 
Eins og kall og ítarefni ráðstefnunnar gefur til kynna er markmið okkar í dag og á morgun að skoða vendipunkta samtímans. Að horfa til þeirrar brýnu nauðsynjar sem við þekkjum öll á skýrri afstöðu til framtíðarinnar. Og þá ekki síst til þess með hvað hætti við getum lagt hönd á plóg til að viðhalda velferð og viðgangi allra þeirra sem reiða sig á vistkerfi jarðar; plantna, dýra og mannfólks, óháð efnahag, menningu, stjórnmálakerfum og landfræðilegri stöðu. Þetta er gríðarstórt verkefni, sem samtíminn þarf að vinna án þess að vega að sértækri menningu og þörfum, ólíkum lífsháttum og fjölbreytileika vistkerfa.  
 
Upphafsorð John Donne, í einhverju frægasta ljóði enskrar tungu um að enginn sé eyland eru auðvitað sígild í slíku samhengi - hafa talað til fólks í nær fjórar aldir. Túlkun ljóðsins í samhengi ráðstefnunnar sem umhyggja fyrir heildinni (collective care), er snúningur á upprunamerkinguna, en þráðurinn er eigi að síður augljós; tilvist okkar allra er einfaldlega samofin. Stríð sem háð er í Úkraínu snertir líf fólks á heimsvísu. Bruni jarðefnaeldsneytis í einni heimsálfu, skapar loftlagsbreytingar allsstaðar, uppskerubrestur í einu landi veldur hungri í öðru, steypa sem uppistaða húsbygginga á einum stað veldur óafturkræfum náttúrspjöllum á öðrum. Þetta sjónarhorn er ekki nýtt í listum, því víðfeðmar staðreyndir á borð við þessar, sem ég nefndi, hafa iðulega verið viðfang lista og hönnunar í gegnum árhundruðin, enda er það ekki síst vegna þess sem listirnar eru svo ríkt mótunarafl á siðmenninguna, á viðhorf okkar og afstöðu til heimsins.
 
Í ávarpi sínu á morgun, ætlar lykilfyrirlesari ráðstefnunnar, danshöfundurinn Sonya Lindfors, að fjalla um hreyfiafl afstöðunnar; leiða sjónir okkar að því sem gerist ef við látum okkur ekki einungis dreyma um það sem er mögulegt, heldur einnig um það sem er ómögulegt. Með hreyfingu sem beinlínis kallar á "róttæka drauma" reynir Lindfors að "hrista upp í og ögra viðteknum valdastrúktúrum, að valdefla samfélag sitt og skapa þar rými fyrir róttæka, sameiginlega draumsýn" eins og segir í kynningu á verkum hennar. Líkt og Martin Luther King, sem líklega flutti frægustu ræðu síðari tíma um draumsýnir, er Sonya Lindfors því, ásamt samstarfskonu sinni Maryan Abdulkarim, talsmaður drauma um sammannlega framtíðarsýn, þar sem böggum fortíðar, svo sem nýlenduhyggju, hefur verið kastað fyrir róða. Með því að gefa okkur tíma til að hlusta hvert á annað, eiga í samskiptum og dreyma saman, finnum við mótvægi, eða jafnvel lausnir, frammi fyrir öllum þeim válegu aðstæðum og hamförum sem heimsbyggðin tekst á við. Með verkum sínum sem meira og minna byggja á því að korleggja hið óþekkta, ímynda sér nýja veruleika og afhjúpa þær hliðar tilvistarinnar sem við erum allajafna ekki svo með vituð um, geta listamenn verið gríðarlegt hreyfiafl, líkt og mannkynssagan er til vitnis um. Í þeim anda beitir Lindfors aðferðum sínum til að vinna bug á kerfisbundinni eða innbyggðri kúgun, ójafnræði, loftlagsvánni, ótta, reiði og hatri á því óþekkta. Hugsanlega má því ímynda sér að ef tuttugasta öldin var öld einstaklingshyggjunnar þá sé sú tuttugasta og fyrsta að verða öld sameiginlegra hagsmuna heildarinnar umfram annað. Enginn er eyland - collective care - umhyggja fyrir heildinni. Það er sem sagt þráðurinn sem verður spunnin hér næsta rúman sólarhringinn.  
 
Ég býð ykkur því að lokum öll hjartanlega velkomin að þeim spuna. Hann hefst hér í þessum sal núna með verkum þeirra Karls Kvaran, Sindra Leifssonar og Kjartans Óla Guðmundssonar. Í stað hefðbundins fyrirlesturs er ykkur boðið að dvelja hér og njóta beint fyrir tilstilli listarinnar, líkt og iðulega tíðkast á rannsóknarráðstefnu Listaháskólans, því miðlun rannsóknarspurninga og hugmynda er með margíslegum hætti á þessu Hugarflugi sem endranær. Eftir áramótin verður síðan Hugarflug með hefðbundum hætti á nýjan leik - þ.e.a.s. í febrúar - og það er gaman að segja frá því að við höldum áfram að hugsa um collective care - eða umhyggju fyrir heildinni, undir þemanu collective futures, sem útleggja mætti sem framtíðarsýnir (eða draumar) heildarinnar. Við erum því að leggja megináherslu á samtakamátt mannkyns, þvert á öll mæri - á þá möguleika sem verða til þegar múrar molna, fordómar eru kveðnir niður og sameiginleg ábyrgð tekin, heildinni til heilla.