Hugarflug 15. - 16. febrúar 2019

 
Hugarflug er árleg ráðstefna Listaháskólans sem haldin var í áttunda sinn árið 2019. Ráðstefnan er vettvangur starfsfólks, nemenda og annarra sem stunda rannsóknir á fræðasviði lista eða tengdra sviða til að mætast og spyrja spurninga, gera tilraunir og kynna verkefni sín. Ætlunin er þannig að skapa aðstæður til að nýjar tengingar og samtöl geti átt sér stað, og nýjir möguleikar til samstarfs á milli ólíkra sviða opnist.
 
Árið 2019 var ráðstefnan stærri en síðastliðin ár og náði yfir tvo daga, en sérstaklega var kallað eftir efni sem tengist þemanu líkami / líkamleiki.
 
Mikill fjöldi góðra tillagna bárust og var sérstaklega ánægjulegt hversu margar tillögur bárust frá starfandi lista- og fræðimönnum sem starfa á ólíkum vettvangi utan Listaháskólans, en samtal út fyrir skólann er mjög mikilvægur þáttur í því starfi sem þar fer fram.
 
Þema Hugarflugs árið 2019, líkami/líkamleiki veitti tækifæri til að skoða og hugleiða marga mismunandi þræði sem kalla á aukið rými í samtímanum.
 
Spurningar eins og hver eru tengslin á milli dýra, plantna og manna? Hver eru tengslin á milli líkamans og tækni? Hver eru tengslin á milli innri og ytri skynjunar líkamans? verða sífellt meira aðkallandi og kalla á athygli.
 
Rannsóknir á fræðasviði lista hafa beint sjónum sínum að þessum þráðum í auknum mæli og segja má að slíkar rannsóknir einkennist einmitt oft af því að unnið sé með líkamann, líkamleika og þá þekkingu sem býr í líkamanum á beinni hátt en önnur fræðasvið. Líkaminn staðsetur okkur í heiminum og veitir okkur aðgang að því að skilja og skynja þær aðstæður sem við erum í hverju sinni. Segja má að það sé einmitt þessi skilningur og skynjun sem listirnar beina sjónum sínum helst að og skapa þannig tækifæri til að skapa samtal, bæði inn á við innan hvers áhorfanda/heyranda og út á við út í samfélagið í heild.
 
Það var einmitt þessi sérstaða listrannsókna sem þátttakendur í Hugarflugi fengu tækifæri til að kynnast í þeim fjölbreyttu samræðuformum sem dagskráin bauð upp á.
 
 
 
Ráðstefnan fór fram í húsnæði Listaháskólans að Laugarnesvegi 91. Skráning var óþörf og var ráðstefnan öllum opin. 
 
Ráðstefnunefnd:
Guðbjörg R. Jóhannesdóttir
Ásgerður Gunnarsdóttir
Berglind María Tómasdóttir
Garðar Eyjólfsson
Hildur Bjarnadóttir
Páll Haukur Björnsson
Verkefnisstjóri: Ólöf Hugrún Valdimarsdóttir
 
Umsjón með listrænni uppsetningu: Ástríður Jónsdóttir

Lykilfyrirlesarar / Keynotes

 

Flýtileiðir

Nánari upplýsingar / contact info: 

Ólöf Hugrún Valdimarsdóttir
olofhugrun [at] lhi.is