Allir sem nota gögn á bókasafni og upplýsingaþjónustu LHÍ verða að virða höfundarétt þeirra, hvort sem um er að ræða bækur, tímarit, hljóðrit, nótur, myndbönd, rafræn gögn eða önnur form.

Samkvæmt höfundalögum nr. 73/1972 hefur höfundur einn rétt á því að gera eintök af verkum sínum, dreifa þeim, sýna þau og birta.

Samningar við bókasöfn hafa verið gerðir þar sem þessar reglur hafa verið rýmkaðar að einhverju leyti.

Allir sem nota gagna- og tímaritasöfnin sem bókasafn og upplýsingaþjónusta LHÍ kaupir aðgang að, verða að virða höfundarétt á þeim verkum sem þar eru aðgengileg.

Almennt má segja að rafræn tímarit og aðrar heimildir sem tilgreindar eru á vef bókasafn LHÍ séu eingöngu til afnota fyrir nemendur, kennara, og aðra starfsmenn LHÍ í þeim tilgangi að stunda nám, kennslu, rannsóknir og annað sem telst til einkanota.

Það er með öllu óheimilt að nota upplýsingarnar í hagnaðarskyni og kerfisbundið niðurhal, afritun og dreifing á þeim er stranglega bönnuð.

Samkvæmt samningi á milli Fjölís og Mennta- og menningarmálaráðuneytisins um afritun til notkunar í skólastarfi má eftirfarandi:

Afrita má stutta þætti úr hverju útgefnu verki, 20% hið mesta, en þó aldrei meira en 30 síður á nemenda. Þó má afrita heila bókarkafla og tímaritsgreinar.

Það má ekki afrita meira en tvær greinar úr hverju tímaritshefti.

Afritun á pappír er aðeins til bráðabirgðanota og því ekki heimilt að geyma slík afrit í birgðum hjá skólanum.

Rafrænn aðgangur að efni sem sett er inn á kennslugagnagrunn skal takmarkast við nemendur og kennara í viðkomandi námskeiði.

 

 

Nánari upplýsingar um höfundarétt má finna á eftirtöldum vefjum:
Fjölís - hagsmunafélag samtaka sem koma fram fyrir hönd rétthafa að verkum sem njóta höfundarréttar og nýtt eru með ljósritun eða annarri hliðstæðri eftirgerð rita.

Hagþenkir - félag höfunda fræðirita og kennslugagna

Rithöfundasamband Íslands

Höfundalög 1972 nr. 73

Stjórnarráð Íslands - Höfundaréttur