Sumarið 2017 var ég á göngu í Kangerlussuaq á Grænlandi. Þar leit ég augum fífuþyrpingar innan um steinaklappir upp af fljótstraumnum. Eftir að hafa flett í gegnum ljósmyndasafnið frá ferðinni eru fífurnar mér efst í huga. 
Mörgun þykir Hrafnafífan einkenna íslenska náttúru, en hún hafnaði í fimmta sæti í atkvæðakeppni um þjóðarblóm Íslendinga árið 2004.1 Til eru mismunandi gerðir fífublóma um allan heim og eru þau því hluti af umhverfi margra annarra samfélaga. Um leið og við stimplum ákveðið fyrirbæri sem séríslenskt, líkt og þjóðarblóm, hverfur athyglin algjörlega frá tilvist þeirra utan landamæranna. Ætli táknmynd Hrafnafífunnar stæði sem menningararfur í dag, hefði hún hreppt fyrsta sætið? 
Eins og smávaxið blóm geta litlu hversdagslegu hlutirnir í lífinu táknað eitthvað miklu stærra en þá sjálfa. Samfélagið hefur hlaðið þá merkingu og jafnvel fest í sögu menningararfsins. 
Musteri íslenska menningararfsins, Þjóðminjasafnið, ber að varðveita og sýna minjar úr menningarsögu þjóðarinnar. Þar er að finna fimm rúmábreiður unnar með gamla kross-saumnum. Dæmi um slíkt er „Riddarateppið“ sem hefur öðlast mikið vægi í sögu útsaums á Íslandi þó svo að höfundurinn sé óþekktur. Á safninu er rúmábreiðan sett á bakvið gler, hangandi upp við vegg. Við þessa uppsetningu inni á Þjóðminjasafninu, breyttist hluturinn í safngrip sem tilheyrir fortíðinni. 
Fornminjarnar, rannsóknarefni Okkar, þarf að varðveita frá hrörnunarferli tímans. Við megum ekki tapa verðmætunum sem brúa bilið á milli nútíma og fortíðar. En þessir staðbundnu hlutir sem sérkenna menninguna eru ekki upphafðir af tilviljun. Kastljósið fellur þangað sem við teljum að sé merkilegast í dag, um þá daga. Hefð saumsims og þjóðarblómið eru í senn áþreifanlegar og óáþreifanlegar menningarerfðir sem við höfum staðsett í undirstöðum samfélagsins. En hvers vegna, til að næra sjálfsmynd hvers og eins? 
Ég varð að að rekja fyrstu sporin upp, rifja upp, og stinga aftur. Stinga niður þar sem fornminjarnar leynast. Undir yfirborðinu við rætur fífunnar. Loks nær ullin tökum á henni og verður að fastri mynd, hangandi á veggjum safnsins.