Gjörningar lifa aðeins í núlíðandi stundu. Núlíðandi stund er ekki hægt að endurtaka, sé hún endurtekin verður hún að annarri núlíðandi stundu, alls óskildri þeirri upprunalegu. Á sama hátt verða gjörningar óhjákvæmilega að einhverju öðru séu þeir fluttir aftur þar sem endurtekningin er í eðli sínu orðin önnur en frummyndin. Engu máli skiptir hversu líkar frummyndin og endurtekningin eru, eða hversu mikið maður reynir að endurupplifa það sem var; hver endurtekning verður óhjákvæmilega að annarri upplifun. Sama hversu oft maður leikur sömu nótu verður aldrei til sami tónn. Það er án efa þess vegna sem við hlustum og horfum ennþá á flutning aldagamalla tónverka – hver flutningur er einstök upplifun og ný. Tónlist er í eðli sínu performatív og lifandi flutning tónlistar mætti þar af leiðandi flokka sem einskonar gjörning þar sem flutningur gjörninga er aðeins til rétt á meðan á honum stendur sem einstök upplifun sem hvorki er hægt að endurtaka né endurupplifa. 
Tónlist samanstendur af tveimur jafnréttháum eiginleikum: hljóði og þögn. Hljóð einkennist af hljóðstyrk, tónhæð, tónblæ og tímalengd, en þögn einkennist einungis af tímanum sem líður á meðan hún stendur yfir. Þögn er ekki hægt að heyra sem samhljóm eða tónblæ; hana er aðeins hægt að skynja sem ákveðna lengd tíma.
Áhorfandi á tónleikum sinfóníuhljómsveitar heyrir hljóð og sér þá sem það mynda, en skynjar þögnina að hluta til einungis því hann sér flytjendur hennar. Sem áhorfendur veitum við hinum þögla flytjanda litla sem enga athygli, en þögnin er jafnmikilvæg hljóði í tónlist – ef ekki mikilvægari.
Í verkum Hildar Elísu birtist áhorfandanum efni, þögn og hljóð, sem listamaðurinn átti engan þátt í að skapa en verða engu að síður að listrænum þáttum fyrir atbeina listamannsins sem miðils og framsetningu þeirra í rými sem öllu jafna er helgað myndlist. Með því að flytja þögn innan um tónlistarflytjendur sem flytja bæði hljóð og þögn vekur flytjandi gjörningsins áhorfandann til umhugsunar um mikilvægi hljóðs og þagnar í tónlist og hlutverki þeirra sem tvær hliðar á órjúfanlegri heild sem aðeins eru til í samhengi hvor við aðra.