Lærdómurinn í línunni

Hvernig nýtist teikning í námi þvert á fög?

 

Teikning er einstakt tól til persónulegrar tjáningar og það að teikna getur komið nemendum í ákveðið ástand flæðis og sköpunar sem getur verið erfitt að ná fram í öðrum iðjum.
 
Í þessari meistararitgerð var leitast við að svara spurningum um hversu mikið er verið að nýta teikningu sem námsaðferð í skólum landsins og hvernig hægt er að nýta teikningu sem námsaðferð í mismunandi fögum.
 
Fjallað er um fyrri rannsóknir sem hafa verið gerðar um hvernig teikning getur eflt minni og einnig um kenningar Betty Edwards um áhrif þess að  teikna á heilastarfsemi okkar. Framkvæmd var eigindleg rannsókn þar sem tekin voru rýnihópaviðtöl við starfandi kennara á Íslandi.
 
Áhersla var lögð á að hafa fjölbreyttan hóp kennara af öllum stigum grunnskólanns og kennara sem kenna fjölbreytt fög. Spurt var um þeirra viðhorf til teikningar og um reynslu þeirra af því að nota teikningu sem námsaðferð. Rýnihópaviðtölin voru svo þemagreind og það voru ellefu þemu og þrjú yfirþemu greind úr samræðunum.
 
Fyrsta yfirþemað var um eiginleika teikningar. Það fjallaði um hvernig teikning er tjáningarmáti, hvaða áhrif það að teikna hefur á nemendur, hvernig líkamlegir eiginleikar teikningar hafa róandi áhrif, hvernig það að teikna æfir úthald og leiðir til þess að nemendur finni fyrir stolti.
 
Annað yfirþemað sem greint var úr samræðunum var um það hvernig við erum öll einstaklingar með mismunandi styrkleika og áhugasvið og hversu mikil áhrif áhugi, bæði nemenda og kennara, hefur á hversu mikið er teiknað í námi.
 
Síðasta yfirþemað fjallaði um hlutverk teikningar innan skólakerfisins. Þar er talað um hvernig fjölbreyttara námsmat og samþætting gætu verið lykillinn í að nýta teikningu meira og hvernig hægt væri að valdefla nemendur og kennara til þess að nota teikningu.
 
Niðurstöðurnar gefa vil kynna að það er verið að nýta teikningu víða en það kom líka í ljós í samræðunum að margir kennara kalla eftir auknu samstarfi og samþættingu listgreina með bóklegum fögum.
 
1._hildigunnur_sigvaldadottir_hildigunnur20lhi.is-24.jpg
 

 

 
Hildigunnur Sigvaldadóttir
hildigunnursig [at] gmail.com
Leiðbeinandi: Halla Birgisdóttir
20 ECTS
2022