Rannsóknir

Listrannsóknarstofa í tónlist (LíT) hefur það markmið að auka og efla rannsóknir sem byggja á og miða að listrænni vinnu innan tónlistar. Áhersla er lögð á fjölbreyttar aðferðir og nálganir í listrannsóknum, hvort sem um er að ræða tónsmíðar, flutningur, hljóðlist eða hvers konar list sem setur sig í tengingar við tónlist. Stofan styður og styrkir meistaranámið með því að skipuleggja málstofur, stuðla að þverfaglegri umræðu, efna til samstarfs og hanna námskeið. Helstu rannsóknasvið stofunnar er tilraunakennd tónlist, nótnaritun, hreyfinótnaskrift, ný hljóðfærasmíði, listrænar tilraunir, flutningur nútímatónlistar, sjálfsmynd flytjandans og hugbúnaðarþróun.

Tengsl við listastofnanir

Þar sem stór hluti meistaranáms í tónsmíðum við Listaháskólann byggir á þátttöku í listrænu starfi hefur deildin fengið til liðs við sig ýmsar stofnanir og fyrirtæki sem með einum eða öðrum hætti tengjast skólastarfinu: hljómsveitir, Óperuna, RÚV, menningarmiðstöðvar, listasöfn, leikhús og hugbúnaðarfyrirtæki. Í sumum tilfellum byggir samstarfið á formlegum grundvelli en í öðrum tilfellum er samvinnan lausari.

Meðal aðila sem námsbraut meistaranáms í tónsmíðum á sérstakt samstarf við um verkefni eru Þjóðlagasetrið á Siglufirði, tölvuleikjafyrirtækið CCP og CAPUT-hópurinn.

Tengsl við tónlistarhátíðir

Myrkir músíkdagar er tónlistarhátíð fyrir nútímatónlist þar sem íslensk tónlist er í forgrunni á dagskrá hátíðarinnar ásamt nýlegum tónverkum erlendis frá.

Raflost - Alþjóðleg raflistahátíð sem Raflistafélag Íslands heldur árlega í samvinnu við Listaháskólann og erlenda listaháskóla. Nemendur taka þátt í verkefnum og hljómleikum.
Opnir fyrirlestrar tónlistardeildar

Á hverju ári heldur fjöldi lista- og fræðimanna erindi eða kynningar um verk sín og rannsóknir í opnum hádegisfyrirlestrum tónlistardeildar. Fyrirlestrarnir eru afar mikilvægur þáttur í upplýsingarstarfi skólans, ásamt því að vera opinn vettvangur fyrir tengsl nemenda við hugmynda- og reynsluheim starfandi lista- og fræðimanna.

Hugarflug

Hugarflug er ný árleg ráðstefnuröð við Listaháskólann sem ætlað er að skapa vettvang fyrir gagnrýna umræðu um rannsóknir á fræðasviðinu listir. Áhersla er lögð á að draga fram ólíkar aðferðir rannsókna í listum og að varpa ljósi á þann fjölbreytileika sem ríkir í nálgun, miðlun og efnistökum.