Í námskeiðinu verður fjallað um kenningar sem byggja á samspili lista, skynjunar og gagnrýninnar hugsunar við almennt nám og þroska með sérstakri áherslu á þverfaglegt skólastarf sem rannsóknarsamfélag. Sérstök áhersla er lögð á heimspekilega samræðu, bæði sem þverfaglega kennsluaðferð í skapandi skólastarfi og sem sjálfstæða rannsóknaraðferð fyrir þá sem vilja dýpka skilning sinn á tilverunni og efla færni sína í lýðræðislegri umræðu. Fjallað verður um tengsl menntunar við meginmarkmið heimspekilegrar samræðu, s.s. sjálfstæða hugsun, gagnrýna hugsun, skapandi hugsun, fordómaleysi, hlustun, undrun og sjálfsþekkingu. Einnig verður fagleg staða kennarans í lærdómsferli nemenda skoðuð. Mikil áhersla er lögð á mikilvægi umhyggju og samhygðar sem undirstöðu þess að byggja upp traust og trúnað sem þarf að vera til staðar í rannsóknarsamfélagi. Námskeiðið byggist upp á fyrirlestrum, umræðum og samræðuæfingum. Auk þess vinna þátttakendur á vettvangi í heimspekinámskeiði fyrir börn/unglinga. Þátttakendur skila greinargerð sem fjallar um tengsl sérsviðs þeirra við rannsóknarsamfélagið.

Í lok námskeiðsins er ætlast til að nemendur:

  • þekki helstu kenningar sem fjalla um samspil lista, skynjunar og gagnrýninnar hugsunar við nám og þroska
  • þekki helstu kenningar að baki ástundunar heimspekilegrar samræðu
  • þekki markmið og tilgang þess að stunda heimspekilega samræðu
  • geti skipulagt og stjórnað heimspekilegri samræðu
  • geti skipulagt kennslu á eigin fræðasviði þar sem aðferðir heimspekilegrar samræðu eru í forgrunni
  • geti lagt mat á eigin frammistöðu og hugsanaferli
  • búi yfir hæfni til að endurskoða eigin afstöðu til röksemda í ljósi nýrra upplýsinga.

Námsmat: Þáttaka í umræðum, skrifleg og verkleg verkefni
Kennari: Ingimar Ólafsson Waage, Brynhildur Sigurðardóttir
Kennslutungumál: íslenska
Staður: Laugarnes
Tímabil: 25. september til 4. desember 2023
Kennsludagar og tími: mánudagar, kl. 13:00-15:50
Einingar: 6 ECTS
Verð: 73.500 kr. (án eininga) / 91.800 kr. (með einingum)
Nánari upplýsingar: opni [at] lhi.is
Fyrirhverjar er námskeiðið: námskeiðið er kennt á meistarastigi í listkennsludeild

Umsóknargátt

Kjósi nemendur að taka námskeið án eininga gefur kennari verkefnum nemenda ekki endurgjöf. Verðmunur ræðst þ.a.l. af auknu vinnuálagi kennara. Námskeið sem tekin eru án eininga geta þó skráðst, án eininga, á námsferil nemenda.