Harpa Másdóttir
www.harpamas.is

Viðarkúlan samanstendur af margs konar viðarbútum úr alls konar viði. Hún gæti verið gegnheil eða hol að innan en það sést ekki utan á henni. Gefum okkur það að hún sé hol að innan en hol viðarkúla táknar lífskraftinn (f. élan vital) eins og hann er skilgreindur af Henri Bergson. Hið fullkomna form, hin hola kúla er eins og linnulaus drifkraftur, flæðið innra með okkur, lífskrafturinn sem knýr okkur áfram. Hið eiginlega sjálf sem stendur berskjaldað fyrir því sem koma skal. Kúlan er hol að innan af því við þekkjum ekki framvinduna, en erum tilbúin að taka á móti því sem kemur, upplifunum og áreiti frá umheiminum.

Hið ytra form gefur tilefni til þess álykta að hún sé gegnheil en hin gegnheila viðarkúla er samansafn minninga sem hafa tekið á sig form. Hún er tákn fyrir streymið eða líðandina og tengist lífskraftinum. Streymið er hið óstöðvandi flæði vitundar, streymi sjálfsins, sem reynir að kalla fram ýmsar myndir minninga, tilfinninga og skynjana.

Verkið samanstendur af margs konar viðarbútum – minningarbrotum – sem koma úr mismunandi áttum sem ég hef raðað saman á ákveðinn hátt. Þetta er ekki afrit af fortíðinni heldur er um afbyggingu (f. déconstruction) að ræða, ákveðna úrvinnslu á liðnum atburðum í leit að merkingu þeirra. Sögur annarra tengjast minni eigin sögu og renna saman á ófyrirséðan hátt. Æðar viðarbútana teygja sig í inn í hvern annan, á kræklóttan máta, þjappast saman og reyna að mynda heild í óreiðunni. Æðarnar hafa það hlutverk flytja næringu og merkingu milli bútanna. Í afbyggingunni, eða þegar viðarbútarnir raðast saman á ný, myndast holur sem tákna lífskraftinn. Þá eru einnig holur í stökum viðarbútum í skúlptúrnum. Skúlptúrinn er hin gegnheila viðarkúla sem hefur tekið á sig form, en er í raun merking í stöðugri verðandi. Afbyggingin er í stöðugri mótun í takt við sjálfið sem er í samtali við lífskraftinn í leit að merkingarbærum veruleika.