Eru kvikmyndir listgrein eða tungumál?

Kennsluefni i kvikmyndagerð og kvikmyndalæsi

 

Í þessu verkefni bjó ég til nýtt kennsluefni í kvikmyndagerð og kvikmyndalæsi fyrir nemendur á miðstigi grunnskóla. Ritgerðin er tvískipt og fjallar annars vegar um hugtakið „kvikmyndalæsi“ og hinsvegar um kennsluefnið.
 
Árið 2020 var gefin út Kvikmyndastefna til ársins 2030 þar sem m.a. er fjallað um endurskipulagningu náms í kvikmyndagerð á öllum skólastigum.
 
Í kaflanum um menntun í grunnskólum kemur fram að kenna eigi „mynd- og miðlalæsi“. Hins vegar var hugtakið „kvikmyndalæsi“ einnig notað í þeim skjölum sem unnin voru í aðdraganda Kvikmyndastefnunnar. Þetta hugtak vantar í Kvikmyndastefnu til ársins 2030.
 
Sú áhersla sem undanfarið hefur verið lögð á viðbrögð við nýrri tækni er líkleg orsök breytt orðalags. Við hvarf hugtaksins „kvikmyndalæsi“ úr kaflanum sem snýr að menntun í grunnskólum er hætt við að kvikmyndakennsla í grunnskólum fari að snúast um greiningu kvikmynda í stað þess að kenna nemendum að njóta þeirra.
 
Kvikmyndafræði skiptir nálgun á kvikmyndir í þrjár stefnur; „kvikmyndir sem listform eða tilbúningur“, „kvikmyndir sem raunveruleiki“ og „kvikmyndir í nútímalegum skilningi eða sem fyrirbærafræðileg upplifun“.
 
Þessar þrjár leiðir til þess að hugsa um kvikmyndir gefa að mínu mati vísbendingu um að mikilvægt sé að kenna kvikmyndir á sem fjölbreyttastan máta í grunnskólum.
Í síðari hluta ritgerðinnar kynni ég námsefnið. Þetta námsefni er í formi forskriftar 15 fjölbreyttra kennslustunda í kvikmyndagerð.
 
Kennslustundirnar eru hugsaðar þannig að listkennarar í grunnskólum geti kennt þær þrátt fyrir að vera ekki sérstaklega menntaðir í kvikmyndagerð. Ekki er nauðsynlegt að kenna þær allar í einni kennslulotu heldur er efnið þannig samið að hægt er að kenna einstakar kennslustundir.
 
Það er mín skoðun að með því að kenna nemendum eiginlega kvikmyndagerð séu þeir mun líklegri til fá áhuga á kvikmyndum sem listgrein og skilja betur frásagnarformið.
 
Í lok ritgerðar fjalla ég um tilraunarkennslu tveggja kennslustunda úr námsefninu í fimmta og sjötta bekk.
 
Ég vil þakka Guðrúnu Helgu Jónasdóttur fyrir samtölin, Anítu Ómarsdóttur fyrir að hleypa mér í tilraunarkennslu, Ester Rós Björnsdóttur og Gunnari Theodóri Eggertssyni fyrir yfirlestur og leiðbeinandanum mínum Vigdísi Gunnarsdóttur.

 

hallur.jpg
 
 
Hallur Örn Árnason
hallura [at] gmail.com
Leiðbeinandi: Vigdís Gunnarsdóttir
30 ECTS
2022