Þú ert að reyna að horfa inn um glugga á íbúð sem þú hefur aldrei komið inn í, en átt erfitt með að aðskilja það innra frá endurspegluninni af þínu umhverfi. Hugurinn reynir að setjast á stólinn í íbúðinni en þú getur ekki áttað þig á hvort á honum séu fjórir eða þrír fætur. Sjónvarpið er frekar nálægt stólnum, sérstaklega miðað við stærð þess. Úr jakkavasanum þínum heyrist kunnulegt hljóð og þú ferðast samstundis í næsta bæjarfélag þar sem þú býst við símtali frá manneskju sem býr þar. Hún er eflaust, mjög líklega, á þeim stað núna að reyna að staðsetja þig. Birtustigið á skjá símans er stillt fremur lágt svo þú sérð endurspeglunina af þér og húsinu fyrir aftan sem staðsetur hugsunina nokkrum mælieiningum fyrir ofan jörðina þar sem þú stendur. Tæknilega séð færðist huginn aldrei úr stað. Það var ekki fyrr en þú tókst eftir því að leiðbeinandi-forritið í símanum hafði leitt þig óþarflega langa leið í næsta bæjarfélag, að þú finnur fyrir aftengingu þíns ákveðna miðpunkts í samanburði við fjarlægðir og staðsetningar. 
 
--------
 
Listaverkið er kannski nálægt og býður uppá gagnvirkni en sýningagesturinn fjarlægist og upplifir allt frá sínum huga, sem er kominn fjölda mælieininga í burtu frá sjálfu verkinu. Rýmið hefur áhrif á listaverkið og listaverkið hefur áhrif á gestinn. Gesturinn hugsar um eitthvað allt annað rými en listamaðurinn og enginn getur staðsett verkið.