Íslenskur leir

Tenging við umhverfið, að skapa með leir úr náttúrunni

Þessi listrannsókn var til þess gerð til að sýna fram á að við eigum fullt af nýtilegum leir á landinu. Framkvæmd var rannsókn í gegnum sköpun þar sem allt sem gerðist í ferlinu var skrifað niður. Ferlið var ekki einungis vísindalegt heldur einnig líkamlegt, tilfinningalegt og andlegt. Ég þróaði með mér góða skynjun fyrir landinu og efninu ásamt því að mynda sterka tengingu við náttúruna. Markmiðið með þessari rannsókn var að koma þekkingunni á efninu áfram í gegnum sköpun.

Fyrsti hluti rannsóknarinnar fólst í því að rannsaka alla þá þekkingu sem til er um íslenska leirinn, þar sem skoðuð var saga íslenska leirsins, hvað íslenskur leir er í jarðfræðilegum skilningi, notkun íslenska leirsins í dag ásamt því að rannsaka mikilvægi þess að íslenski leirinn sé notaður í bæði leirgerð og kennslu, til hliðsjónar við mikilvægi náttúrunnar, tengingu mannfólks við náttúruna, andlega heilsu, listræna umhverfismenntun, sjálfbærni, útináms og náttúruverndar. 


Annar hluti rannsóknarinnar fólst í því að finna leir í náttúrunni, þar sem skráðar voru niður allar ferðir sem ég fór í til þess að finna leir, þar kemur meðal annars fram staðsetning og dagbókarfærslur um hvernig ég fann leirinn. 

Þriðji hluti rannsóknarinnar fólst í því að gera rannsókn á öllum leirtegundunum sem ég fann, þar sem eiginleikar hvers leirs voru skráðir í gegnum sköpun og brennslu. 

Ritgerðin inniheldur allt ferlið frá því að finna leirinn út í náttúrunni til lokabrennslu á einstökum leirmunum úr íslenskum leir. 


 

Ferlið inniheldur ferðirnar sem ég fór í að hverjum stað sem ég fann leir, hvernig hver leir var grafinn upp, þurrkaður, hreinsaður og mótaður í rýrnunar-, snúnings- og glerungaprufur, ásamt tveim handmótunaraðferðum þar sem mótaðar voru skálar úr öllum leirtegundunum. Allir leirmunirnir voru hrábrenndir, myndir teknar sem sýna litabreytingarnar sem áttu sér stað í hverjum leir og rýrnun mæld. Glerungaprufurnar voru glerjaðar með fjórum mismunandi glerungum, glærum, svörtum, hvítum og bláum glerung til þess að komast að því hvernig hver leir virkar með mismunandi glerungum. Allir leirmunirnir voru að lokum lágbrenndir sem gáfu gefandi niðurstöður í allskonar litum, rýrnun og styrk hvers leirs. Myndir fylgja ritgerðinni þar sem sjón er sögu ríkari þegar listrannsókn er gerð með leir. 

 

Gunnhildur Rán Gunnarsdóttir

grkeramiklist [at] gmail.com

Leiðbeinandi: Hye Joung Park

30 ECTS

2023