Sláðu inn leitarorð
Guðrún Sigurðardóttir
Guðrún Sigurðardóttir
gudrusig [at] gmail.com
Náttúra er jafnt gróður jarðar og samskipti manna. Náttúra er allt á milli himins og jarðar. Ósnortið jafnt sem meðhöndlað af lífverum heimsins. Maðurinn er ein af lífverum heimsins. Náttúran felur í sér kerfisbundin tengsl allra hennar fyrirbæra, sífelda hringrás sem er bundin viðkvæmu jafnvægi. Verk mín mótast í vinnuferlinu, þau þróast í hringrás tilrauna og hugsana um náttúruna. Litlar einingar og kerfi verða til og mynda heild sem stendur fyrir heim af einhverju tagi.
Mosi er hluti af grunnkerfi náttúrunnar. Hrjóstrugt land og náttúra nýtur góðs af hæfni hans til að ná fótfestu í rýru undirlagi. Mosinn andar. Hann er lungu jarðar. Frumur mosans una sér ekki hvíldar frekar en frumur í lungum mannsins. Saman mynda þær órofa kerfi, hringrás koltvíoxíðs og súrefnis. Viðkvæmar og harðgerar í senn vinna þær sleitulaust að framgangi lífs. Frumur mosans taka upp koltvíoxíð og skila út súrefni. Frumur lungnanna taka upp súrefni úr andrúmsloftinu, flytja það til líkamans sem skilar þeim til baka koltvíoxíði sem þær senda út í andrúmsloftið. Í hversdeginum fara þessi störf fram án eftirtektar. Sérhæfing og samvinna skiptir öllu máli. Hver fruma hefur sitt hlutverk, hún er ein eining. Með öðrum samskonar frumum og ólíkum áorkar hún miklu. Mismunandi hlutverk, mismunandi kerfi. Áreynslulaus andardráttur og ósýnileg ljóstillífun er jafnvægi byggt á sérhæfingu og samvinnu.