Listir og mannréttindi
Greinar Barnasáttmálans kenndar í gegnum skuggaleikhús

 
Í þessu meistaraprófsverkefni voru gerð drög að kennsluaðferð þar sem kenndar voru greinar úr samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna í gegnum listform skugga- leikhússins. Við uppbyggingu kennsluaðferðarinnar var notuð aðferðarfræði reynslunáms- kenningar David Kolbs. Kennslan fór fram í formi smiðju.
 
Haldnar voru tvær smiðjur í samstarfi við Reykjarvíkurborg, Höfða Friðarsetur og Háskóla Íslands. Nemendur í smiðjunum voru á aldrinum 11-12 ára og í annarri smiðjunni voru 15 nemendur en í hinni 29 nemendur. Þetta voru fjölþjóðlegar smiðjur, þar sem nemendur töluðu mörg tungumál auk íslensku. Smiðjurnar byggðust upp á því að nemendurnir hlustuðu og horfðu á fræðsluefni um valdar greinar Barnasáttmálans og unnu upp úr þeim skuggaleikrit. Þetta gerðu þeir í gegnum reynslunám, þar sem þeir unnu hugmyndavinnu, handrit og leikbrúður. Að lokum sýndu nemendurnir leikritið að viðstöddum áhorfendum, sem voru aðrir nemendur skólanna og foreldrar. Við uppbyggingu smiðjanna var unnið út frá kenningum mannréttindakennslunnar og þá sérstaklega farið í Barnasáttmálann og innleiðingu hans á Íslandi. Farið var yfir sögu og möguleika í kennslu í gegnum skugga, listkennslu og samþættingu hennar við bókleg fög.
 
Til að meta árangur kennsluaðferðar- innar og smiðjanna í heild, var bæði samtal á milli nemenda og kennara og auk þess var lagður fyrir þá spurningalisti. Spurningalistinn var lagður fyrir 25% heildarfjölda nemenda smiðjanna sem ýmist voru sjálfboðaliðar eða valdir með slembiúrtaki.
 
Niðurstöðurnar komu vel út, almenn ánægja var með kennsluaðferðina hjá nemendum og þeir náðu að skilja og túlka inntak greina Barnasáttmálans í gegnum skuggaleikhúsið.
 
 
20180507_125924.jpg
 

 

Guðrún Ragnheiður Guðmundsdóttir
gunnaheida [at] gmail.com
Leiðbeinandi: Dr. Ellen Gunnarsdóttir
2019