Neshringir: Að tengja við umhverfi í leik og list

 

Í þessu meistaraverkefni fjalla ég um þróun námsefnis sem ég vann með þriðja bekk í Grunnskóla Seltjarnarness. Námsefnið er spil sem kallast Neshringir og í því eru unnin verkefni sem byggja á grenndarnámi þar sem áhersla er á leik og aðferðir lista.
 
Markmið spilsins er að tengja grunnskólabörn betur nærumhverfi sínu, efla væntumþykju fyrir náttúrunni um leið og leitast er við að styrkja gildi sem hvetja til náttúruverndar.
 
Í fyrri hluta verkefnisins greini ég frá því hvernig alþjóðleg umræða um umhverfis- og menntamál hefur haft áhrif á þróun aðalnámskrár. Því næst fjalla ég um þær kenningar í kennslu- og sálarfræðum sem eru grunnurinn að Neshringjum svo sem kenningar um grenndarnám, menntun til sjálfbærni, notkun leikja í námi, og kennslu með aðferðum lista.
 

 

 
Seinni hluti ritgerðarinnar er greinargerð og dagbók um kennslu og framkvæmd fjögurra mismunandi verkefna leiksins. Við ígrundun nemenda í lok verkefnanna koma fram vísbendingar um þau gildi sem börnin hafa þróað með sér.
 
Þessar vísbendingar gefa ríka ástæðu til bjartsýni. Hinsvegar er það ljóst að tenging nemenda við nærumhverfi sitt og styrking umhverfisvitundar og gilda sem snúa að verndun náttúrunnar er langtíma markmið sem bæði heimili og skóli þurfa að koma að.
 
Niðurstaða mín er sú að námsefni í líkingu við Neshringi þar sem unnið er að því að skynja og rannsaka nærumhverfið í leik og tjá það á fjölbreyttan listrænan hátt gefi góða raun og megi yfirfæra og nota sem fyrirmynd þannig að henti nærumhverfi nánast hvar sem er.
 
 
Guðrún Jóhannsdóttir

Mynd: Owen Fiene

 

Guðrún Jóhannsdóttir
leshus1 [at] gmail.com
Leiðbeinandi: Hanna Margrét Einarsdóttir
10 ECTS
Útskriftarár: 2022