Guðný Sara Birgisdóttir
gudny.sara.b [at] gmail.com

Ég sit á spjalli með konu með heilabilun. Hún er 97 ára gömul. Við horfum báðar yfir Reykjavík en hún sér bara „sveitina heima“. Ég veit að hún segir ekki satt  frá. Hún bjó alltaf í Reykjavík. Hún segist hafa heimsótt ömmu sína í Reykjavík reglulega en ég veit að það er heldur ekki rétt. Amma hennar bjó aldrei í Reykjavík.

Hvað gerist þegar við eldumst? Hvað verður um minningar okkar? Sumar minningar valda okkur vanlíðan og oft sér hugurinn um að eyða þeim eða grafa á stöðum sem við leitum sjaldan eða aldrei að. Með ótrúlegum aðferðum líkt og dáleiðslu er þó hægt að framkalla sumar þær minningar sem við héldum að væru horfnar eða gleymdar, opna inn til þeirra líkt og hurðir að herbergjum. Húsið er táknmynd hugans. Það hefur kjallara, hæðir, ris, króka og kima sem hýsa margar skýrar minningar. Við heimsækjum þær í dagdraumum okkar í gegnum lífið.

Ég bý til innsetningar sem fjalla um minningar, drauma, dagdrauma, sögur og frásagnir þar sem áhorfandi ferðast um rýmið stýrður af textum, myndskeiðum, lykt og hljóði. Í þeim hef ég berskjaldað sjálfa mig og aðra með því að setja minningar mínar og tilfinningar fram í tilraun til þess að vekja upp svipaða tilfinningu hjá áhorfandanum. Þannig reyni ég að ná minningum sem greyptar eru djúpt í huga áhorfandans upp á yfirborðið. Ég varpa fram hugsunum og spurningum sem ég kann ekki svör við í von um að áhorfandinn spyrji sig þess sama.

Það er líklegt að sumar af okkar fyrstu minningum séu í raun ekki minningar, heldur frásagnir sem við púslum saman úr sögum sem okkur hafa verið sagðar, senur búnar til úr ljósmyndum sem við höfum skoðað. En hvað ætli verði um minningar okkar? Hvernig stendur á því að þegar við eldumst og heilinn fer að gefa sig tengjast flestar minningar æskuárunum en skammtímaminnið nánast hverfur?