Leitin að regnboganum

Ferlið við sköpun sögusviðs, persóna og nýrrar barnatónlistar með áherslu á hreyfiþroska og valdeflingu

 
 
Verkefnið fjallar um sköpunarferlið á bak við gerð nýrrar barnasögu og sköpun barnatónlistar.
 
Sögusviðið er Regnbogaland og leitin að regnboganum er þema sögunnar. Í henni lenda allir litirnir í ævintýrum við leit að regnboganum. Hver litur stendur fyrir ákveðinn eiginleika eða dygð. Leitin og ferðalagið á að sýna börnum mikilvægi hugrekkis, þakklætis, virðingar og hjálpsemi.
 
Tónlist Regnbogalands, sem er samin af höfundi ásamt Mána Svavarssyni, er ætlað að fanga athygli barna, styrkja notkun þeirra á tungumálinu, virkja ímyndunarafl og efla hreyfiþroska þeirra.
 
Fjallað er um samstarf okkar Mána, uppbyggingu tónlistarinnar í Regnbogalandi, áherslur hennar og lagatexta. Einnig er fjallað um mikilvægi þess að gefið sé út íslenskt barnaefni sem eflir hreyfiþroska, málþroska og eykur ímyndunarafl barna og efnið sé aðgengilegt foreldrum.
 
Tónlist og dans mynda eina heild og börn sem fá kennslu í skapandi dansi eru virkir þátttakendur í því að nota ímyndunaraflið og stjórna líkamanum í takt við það. Í ritgerðinni er skoðað mikilvægi þess að mennta börn í gegnum tónlist og dans og sjónum beint að mannkostamenntun.
 
Dygðir og valdefling spila lykilþátt í ævintýri Regnbogalands. Í ritgerðinni eru skoðaðar aðferðir David Wood og Christopher Vogler, sem báðir hafa komið að handritsgerð að efni fyrir börn.
 
Skoðað er hvað nýttist höfundi Regnbogalands við gerð sögunnar og við persónusköpun litanna í Regnbogalandi. Einnig er skoðað hvernig sagan byggist upp og hvernig áherslur um samstöðu, valdeflingu og dygðir flétttast saman við tónlistina en sagan og tónlistin haldast í hendur í ferðalaginu persónanna við að finna regnbogann.
 
Að lokum er rætt um möguleika ævintýrisins um Regnbogaland í framtíðinni og hvernig höfundur hefur hugsað sér að halda áfram að miðla því sem sagan hefur fram að færa og opna augu fólks fyrir mikilvægi sköpunar í leik og starfi.
 
Eitt er víst að leitin að regnboganum endar ekki hér.
 
 
 
 
Guðný Ósk Karlsdóttir
gudnyoskkarls [at] gmail.com    
Leiðbeinandi: Vigdís Lebas Gunnarsdóttir    
Listkennsludeild
20 ECTS
2021