Sláðu inn leitarorð
Guðný Jónsdóttir
Börn hafa rödd, lífið er núna
Sjálfboðaverkefni í skólastarfi
Markmið rannsóknarinnar var að rýna í þýðingu sjálfboðaverkefna sem eru hluti af grunnskólanámi fyrir nemendur og skólastarfið í heild. Könnuð var sýn skólastjórnenda og kennara til þess hvaða merkingu sjálfboðaverkefni hafa fyrir skólastarf í heild sinni, menningu skólans og námið. Einkum var leitað eftir reynslu þeirra af því hvort þátttaka nemenda styðji við grunnþætti menntunar í aðalnámskrá grunnskóla. Þá var könnuð sýn nemenda til þátttöku í sjálfboðaverkefnum og hvaða gildi þau tengdu við þátttöku sína.
Í rannsóknni voru notaðar bæði eigindlegar og megindlegar aðferðir og þannig leitast við að draga fram fjölbreytt gögn og varpa mismunandi ljósi á rannsóknarviðfangsefnið.
Safnað var upplýsingum um tvö viðamikil sjálfboðaverkefni; Gott mál í Hagaskóla og Góðgerðardagur Kársnesskóla. Rýnt var í gildi verkefnanna, styrkleika þeirra og veikleika. Myndaðir voru tveir rýnihópar nemenda í báðum skólum. Tekin voru hálfopin viðtöl við nemendur og skólastjórnendur og auk þess sem spurningakönnun var lögð fyrir kennara Hagaskóla um þeirra sýn á verkefnið Gott mál.
Helstu niðurstöður gefa til kynna að skólafólkið telji verkefnin - góð verkfæri til að efla samfélagsþátttöku nemenda og þjóna markmiðum grunnþátta menntunnar sem snúa að læsi, sjálfbærni, sköpun, lýðræði og mannréttindi, heilbrigði og velferð. Bæði skólastjórar og kennarar telja að verkefnin hafa góð áhrif á menningu skólanna og á heildina litið sé afraksturinn góður ávinningur bæði fyrir nemendur og skólana í heild. Að þeirra mati eru helstu styrkleikar verkefnanna kærleikshugsunin kringum verkefnin, samstaðan sem myndast og samvinna margra aðila.
Niðurstöðurnar sýndu enn fremur að nemendur voru þakklátir fyrir að fá tækifæri til þátttöku í verkefnunum, að hafa raunveruleg áhrif í samfélaginu og láta gott af sér leiða. Þeir töldu það rétt sinn að fá tækifæri til þátttöku í þess konar samfélagsverkefnum og að slíkt starf eigi að vera fastur liður í skólastarfinu. Gildin sem nemendur tengdu sérstaklega við voru: þakklæti, hjálpsemi, samhyggð, stolt, aukið sjálfstraust og trú á eigin getu. Þátttökugleði, gefandi samvinna og ríkur samtakamáttur skólasamfélagsins var leiðarstef viðtalanna.

Guðný Jónsdóttir
gj [at] mmedia.is
Leiðbeinandi: Ragný Þóra Guðjohnsen
30 ECTS
gj [at] mmedia.is
Leiðbeinandi: Ragný Þóra Guðjohnsen
30 ECTS
2020