,,Það þarf átak til að snúa við tankskipi“

 
Ritgerðin fjallar um starfendarannsókn sem stóð yfir í þrjár annir frá haustönn 2016 og lauk henni í lok haustannar 2017.
 
Í rannsókninni beindi ég sérstaklega athygli að því hvernig upplýsingatækni gæti eflt sjálfstæði og frumkvæði nemenda í skólastarfi. Ég leitaðist við að svara þeirri spurningu hvort aukinn þáttur tækninnar gæti haft þessi áhrif á nemendur. Einnig skoðaði ég starf mitt og hvernig ég gæti stuðlað að þeim þáttum sem ég tel mikilvæga.
 
Tilgangur starfendarannsóknarinnar var því að skoða hvernig ég gæti stuðlað að því að nemendur mínir nýttu sér upplýsingatækni sem eflandi verkfæri í skólastarfi. Ég hélt dagbók, tók ljósmyndir og myndbönd af starfinu með nemendum, átti samtöl við samstarfskennara mína og nemendur skólans. Þessi gögn hef ég notað til að skoða þátt minn í þessu breytingaferli auk þess leitaðist ég við að finna hvað fræðimenn hefðu sagt um viðfangsefnið mitt.
 
Í rannsókninni varð ég vör við að nemendur eru almennt ánægðir þegar þeir vinna verkefni þar sem þeir fá að nota upplýsingatækni- og miðlun. Það sem ég tók eftir er að nemendur nýttu tímann vel og sýndu sjálfstæði í vinnubrögðum. Þess vegna er ég á þeirri skoðun að upplýsingatækni- og miðlun efli nám nemenda, auki sjálfstæði þeirra og gefi þeim tækifæri á nýrri nálgun í námi sínu sem ekki er hægt að ná með öðrum hætti. Það hjálpaði mér nota að vinnuramma Liz Kolb til að meta útkomu starfendarannsóknarinnar en samkvæmt matsformi hennar þá jók tæknin þátttöku og skilning nemenda til muna.
 
Niðurstöður rannsóknarinnar eru því ekki aðeins huglægt mat mitt þó svo að jákvæð upplifun mín hafi haft áhrif. Starfendarannsóknin hafði einnig góð áhrif á starf mitt og veitti mér aukna starfsgleði. Það hefur eflt mig sem kennara að sjá hvað upplýsingatækni sem nýtt er í starfi með nemendum getur boðið upp á fjölbreytta möguleika í námi.
 
margmidlun_gb.jpg
 
gudbjorg.bjarnadottir [at] rvkskolar.is
Leiðbeinendur: Ásthildur Jónsdóttir og Ellen Gunnarsdóttir
2018