Fyrir hverja er námskeiðið: Námskeiðið er opið fólki með myndlistarmenntun sem vill sækja sér símenntun. Valnámskeið í BA og MA námi í myndlist (millideildarval fyrir aðrar námsbrautir).
 
Listbyltingin mikla um 1960 hristi upp í öllu og lagði grunninn að ýmsu sem við teljum sjálfsagðan þátt í myndlist nú á dögum: Gjörningum, hljóðlist, bókverkum, póstlist, samfélagslist, landlist, hugmyndalist og notkun ljósmynda og lifandi mynda í myndlist. Í þessu fólst líka samruni hinna ýmsu listgreina eins og sviðslista, tónlistar og myndlistar. Á Íslandi var það einna helst Magnús Pálsson sem kynnti þessar hugmyndir og kveikti áhuga yngri listamanna. Frá árinu 1975 stýrði Magnús nýrri deild við MHÍ sem fékk nafnið Nýlistadeild. Hann gekk út frá því að listnám og kennsla væru ekki bara undirbúningur heldur listgrein í sjálfu sér – „geggjaðasta listgreinin”. Margir nemenda hans urðu síðar með atkvæða- og áhrifamestu listamönnum landsins. Í námskeiðinu er bæði fjallað um listsköpun Magnúsar og hugmyndir hans og aðferðir í listnámi. Skoðað er hvernig þessi nýja sýn mótaðist út frá verkum, skrifum og myndefni sem liggur henni til grundvallar. Tilraunir eru líka gerðar til að brjóta upp hugsun og reyna að hugsa listina upp á nýtt eins og Magnús hvatti nemendur sína til að gera. Þá er notið þess að í haust er yfirlitssýning í Listasafni Reykjavíkur í tilefni af níutíu ára afmæli Magnúsar: Myndheimur Magnúsar Pálssonar: Eitthvað úr engu, (28.09.2019 – 12.01.2020).
 
Námsmat: Skrifleg verkefni
 
Kennari: Aðalheiður L. Guðmundsdóttir & Jón Proppé
 
Staður og stund: Miðvikudögum kl. 10:30 - 12:10 í Laugarnesi
 
Tímabil: 6. nóvember - 4. desember
 
Einingar: 2 ECTS
 
Kjósi nemendur að taka námskeið án eininga gefur kennari verkefnum nemenda ekki endurgjöf. Verðmunur ræðst þ.a.l. af auknu vinnuálagi kennara.
Námskeið sem tekin eru án eininga geta þó skráðst, án eininga, á námsferil nemenda.
 
Verð: 30.500 kr. (án eininga) / 40.800 kr. (með einingum) 
 
Nánari upplýsingar: Sindri Leifsson, verkefnastjóri myndlistardeildar: sindrileifsson [at] lhi.is