Hjartað í miðjunni

Vinnusmiðja fyrir mæður og börn sem sótt hafa um alþjóðlega vernd

 
Í meistaraverkefni þessu var fókuspunkturinn vinnusmiðja sem var ætluð 4-5 ára börnum og mæðrum þeirra sem sótt hafa um alþjóðlega vernd. Um er að ræða starfendarannsókn þar sem ég rannsakaði það hvernig ég, sem listgreinakennari, gæti skapað viðkvæmum nemendum gott námsumhverfi. Ég byggði á hugmyndum um nám sem félagslegt fyrirbæri, áherslu á menntun tilfinninganna og umhyggjusiðfræði í námi og listkennsluna sem slíkan vettvang.
 
Vinnusmiðjan var samstarf Myndlistaskólans í Reykjavík, Reykjavíkurborgar og Art Equal og stóð yfir sex laugardaga í röð, tvær klukkustundir í senn. Hugmyndin var að skapa aðstæður þar sem mæður og börn þeirra ættu gæðastundir saman og í félagsskap annarra í svipaðri stöðu, en staðreyndin er sú að konur af erlendum uppruna á Íslandi eru hópur sem er líklegur til þess að einangrast, og þá sérstaklega konur með ung börn.
 
Markmið mitt var að stuðla að aukinni tengslamyndun og samtali í gegnum myndræna miðla þvert á tungumál. Nemendur fengju tækifæri til að upplifa myndlistina sem heilandi ferli sem jafnframt geti stuðlað að tilfinningalegri útrás. 
 
 
Í verkefnavali mínu hafði ég það að leiðarljósi að stuðla að aukinni félagslegri hæfni og styrkingu sjálfsmyndar nemenda með því að stuðla að samtali um liti og tilfinningar í gegnum einföld verkefni í formi myndsköpunar, tjáningar og öndunaræfinga. Þá lærðu nemendur jafnframt nokkur orð og einfaldar setningar á íslensku í gegnum verkefnin auk þess að fá tækifæri til að miðla einföldum upplýsingum um eigið tungumál.
 
Upplifun mín var að vel hefði tekist til. Umgjörð, verkefna- og efnisval auk jákvæðra samskipta sem einkenndust af nærgætni hafi stuðlað að öryggi og byggt upp traust, sem ég tel að sé grundvallarþáttur í uppbyggingu góðs námsumhverfis fyrir viðkvæma nemendur.
 
Fríða María Harðardóttir
2019
fridamaria [at] gmail.com
Leiðbeinendur: Ingimar Ólafsson Waage og Hafþór Guðjónsson