Ég get sagt að sú leit sem leiðir mig áfram eigi rætur sínar einkum að rekja til þess sem ég tel mig vita að ég viti ekki.  

(Það er ýmislegt sem við vitum að við vitum, annað sem við vitum ekki að við vitum, svo er það sem við vitum að við vitum ekki, það sem við vitum ekki að við vitum ekki og ?) 

Þar sem ég vinn með hugtök á borð við skynjun, þekkingu og hugsun, reyni ég í gegnum ferlið að halda í einhverskonar skynbragð fyrir því að vita ekki, en ég reyni þó samtímis að öðlast skilning á því. Ég leitast við að komast nær í gegnum mín eigin skrif og bý til formúlur eða uppskriftir í samtali við ýmis efni og umhverfi þeirra. Hvort sem það eru teikningar, málverk eða myndbönd og hljóðinnsetningar, þá skiptir miðillinn ekki máli svo lengi sem hann virðist duga mér fyrir verkefnið.

Þar sem leiðarvísir minn er ímyndunaraflið sjálft, get ég ekki alltaf gert fulla grein fyrir aðferðum mínum. Þó mér hafi ekki enn tekist að skilgreina aðferðafræði mína tel ég ákveðið gildi felast einmitt í því.

Í öllum tilraunum mínum til að skilja betur hvað það er sem ég ekki veit (varðandi orð, hugtak eða tilfinningu), er tilgangurinn að gefa því merkingu; til þess að geta munað eftir, litið aftur til og ávarpað þá merkingu. Jafnvel þó að ég viti í raun aldrei hvar eða hvernig ég tók fyrst eftir því, stend ég í þeirri trú að það hafi þó verið í gegnum gilda skynjun í völundarhúsi upplifana minna. Eftir að hafa dvalið í vitund minni sem ókláraðri hugsun, tilfinningu, ruglingi eða óyrðanlegum skilningi, nær forvitnin yfirleitt yfirhöndinni. 

Fyrir mér er öll upplifun einstaklingsbundin og þrátt fyrir allar okkar tilraunir til að miðla þeirri upplifun fyllilega til annarra er það í raun ógjörningur. Í samskiptum notum við tákn og aðra milliliði sem við höfum samþykkt sem ásættanlega miðla hugsana okkar og skilnings; orð og aðrar eftirmyndir. Handan þeirra getum við víxlað og raðað öllu því sem við skiljum til að vekja upp hugsun. Ég lít á listamenn sem skáld upplifana í slíkum leik.

Þar sem ég hef alltof oft hunsað eða ruglað slíkum tilraunum við hið órökrétta, svara ég því nú til að ég fylgi hjartanu – sé ég spurð hvort ég láti stjórnast af höfðinu eða hjartanu. Og ég er minnug þess að hjarta mitt hefur sína rökvísi, sem ég verð að miða skynjun mína við – því skynsemi höfuðsins er einskis verð ef hjartanu er ekki ljáð rödd.

4._freyja_reynisdottir_freyja20lhi.is-24.jpg