Vísitasíur
Listamenn // Bryndís Snæbjörnsdóttir og Mark Wilson
Sýningin opnar 25. september kl. 15 í Listasafninu á Akureyri

mark_og_bryndis.jpeg
Bryndís Snæbjörnsdóttir og Mark Wilson

Vísitasíur

Sýningin Vísitasíur er hluti af listrannsóknarverkefninu Ísbirnir á villigötum, sem unnið er í samstarfi sérfræðinga á sviði myndlistar, þjóðfræði og náttúru- og umhverfisfræði. Markmið verkefnisins er að auka þekkingu á fjölþættum tengslum dýra, manna og umhverfis á tímum loftslagshlýnunar. Áhersla er lögð á að rannsaka birtingarform hvítabjarna á Íslandi í sögulegu og samtímalegu samhengi.

Bryndís Snæbjörnsdóttir og Mark Wilson vinna saman að þverfaglegum myndlistarverkefnum í listasöfnum víða um heim. Þau vinna jafnt með sérfræðingum sem leikmönnum og í verkum sínum skoða þau birtingarform dýra í samfélagslegu, menningarlegu og umhverfislegu samhengi. Verk þeirra afhjúpa menningartákn, sýna fram á hefðir og viðbrögð manna gagnvart dýrum, um leið og þau varpa ljósi á spurningar um náttúruvernd og ólíka afstöðu manna til útrýmingarhættu innan lífríkisins í vistfræðilegu samhengi.

visitasiur_frettamynd.jpeg
 

Ísbirnir á villigötum

Listrannsóknaverkefnið hefur ótvírætt gildi fyrir uppbygginu rannsóknarumhverfis í listum hér á landi og markar því ákveðin tímamót. Það felur jafnframt í sér þverfaglegt samstarf milli Listaháskóla Íslands og Háskóla Íslands, sem er til þess fallið að opna nýjar leiðir fyrir rannsóknarsamstarf á tímum sem kalla á endurskoðun leiða til þekkingarsköpunar innan fræðasamfélagsins. Verkefnið er stutt af Rannsóknasjóði Rannís og Myndlistarsjóði. Það er hýst hjá Listaháskóla Íslands, þar sem Bryndís gegnir starfi prófessors og fagstjóra meistaranáms myndlistardeildar. Verkefnið er unnið í samvinnu við Anchorage safnið í Alaska og Gerðarsafn í Kópavogi.

Sýningarstjóri er Æsa Sigurjónsdóttir, dósent í listfræði við Háskóla Íslands.

Nánari upplýsingar um rannsóknarverkefnið Ísbirnir á villigötum.
Einnig má hlusta á fróðlegt viðtal við þau Bryndísi og Mark í Víðsjá þar sem að þau ræða um samstarfið undanfarin tuttug ár og yfirlitssýningu sem nú stendur yfir í Gerðarsafni.
Á opnunardegi kl. 16 verður listamannaspjall við Bryndísi og Mark, sem Æsa Sigurjónsdóttir, sýningarstjóri, stýrir.