Tónlistardagur Halldórs Hansen var haldinn 24. maí í Salnum, Kópavogi. Þá voru ungir og upprennandi tónlistarnemendur verðlaunaðir. Verðlaunin eru veitt fyrir framúrskarandi árangur á sviði tónlistar og eru hugsuð sem hvatning þeirra sem þau hljóta. 

Í ár hlutu verðlaunin Erna Vala Arnardóttir, píanóleikari, Bryndís Guðjónsdóttir, sönkona, og Pétur Úlfarsson, söngvari og fiðluleikari. Erna Vala og Bryndís gátu ekki verið viðstaddar verðlaunaafhendinguna þar sem þær eru báðar við nám erlendis. 

 

Erna Vala Arnardóttir, píanóleikari
Erna Vala Arnardóttir er fædd árið 1995. Hún hóf píanónám sjö ára gömul og lauk framhaldsprófi í píanóleik frá Nýja tónlistarskólanum í Reykjavík 18 ára gömul en þar naut hún leiðsagnar Arndísar Bjarkar Ásgeirsdóttur, Jóns Sigurðssonar og Vilhelmínu Ólafsdóttur. Erna Vala stundaði nám um fjögurra ára skeið hjá Peter Máté við tónlistardeild Listaháskóla Íslands þaðan sem hún útskrifaðist með bakkalárgráðu haustið 2017. Erna Vala bar sigur úr býtum í EPTA- píanókeppni Íslands 2015 - það sama ár kom hún fram á tónleikunum Ungir einleikarar í Eldborg, Hörpu, þar sem hún lék píanókonsert Schumanns ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands. Erna Vala hefur hlotið námsstyrk Landsbankans fyrir framúrskarandi námsárangur og styrk úr minningarsjóði um Birgi Einarsson apótekara. Hún stundar nú mastersnám í píanóleik við Síbelíusarakademíuna í Helsinki hjá Hömsu Juris.

Bryndís Guðjónsdóttir, söngkona
Bryndís Guðjónsdóttir er fædd árið 1993. Hún byrjaði ung að syngja í Skólakór Kársness undir stjórn Þórunnar Björnsdóttur og hóf söngnám hjá Önnu Júlíönu Sveinsdóttur við Tónlistarskólann í Kópavogi tíu ára gömul. Hún útskrifaðist þaðan með framhaldspróf í söng sextán ára gömul - og hóf nokkrum árum síðar nám við tónlistardeild Listaháskóla Íslands þar sem hún naut leiðsagnar Þóru Einarsdóttur, Kristins Sigmundssonar og Ólafar Kolbrúnar Harðardóttur. Bryndís var ein fjögurra ungra sólista sem valin var til að koma fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands í janúar síðastliðnum á tónleikunum Ungir einleikarar. Fyrr á þessu ári bar hún sigur úr býtum í Duschek Mozart söngvarakeppninni í Prag í Tékklandi og mun af því tilefni koma fram í tékkneska ríkisútvarpinu síðar í sumar. Bryndís stundar nú bachelornám í söng við Mozarteum í Salzburg hjá Michéle Crider og mun útskrifast þaðan eftir ár.

Pétur Úlfarsson, söngvari og fiðluleikari
Pétur Úlfarsson er fæddur árið 1999. Hann hóf fiðlunám þriggja ára gamall við Suzukitónlistarskólann í Reykjavík og byrjaði að syngja með Drengjakór Reykjavíkur sjö ára gamall. Hann stundaði síðar fiðlunám við Tónlistarskólann í Reykjavík þaðan sem hann lauk framhaldsprófi í fiðluleik haustið 2016 en kennarar hans þar hafa verið Ari Þór Vilhjálmsson, Auður Hafsteinsdóttir og Guðný Guðmundsdóttir. Pétur hefur sótt fjölda fiðlunámskeiða í Evrópu og í Bandaríkjunum og sótt tíma eða masterklassa hjá fiðluleikurum á borð við Midori, Christian Tetzlaff og Sigurbjörn Bernharðsson.
Pétur hóf nám við Söngskólann í Reykjavík tíu ára gamall, fyrst hjá Garðari Thor Cortes en síðar hjá Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur. Hann lauk framhaldsprófi í söng fyrir réttu ári og hlaut þá hæstu einkunn í framhaldsprófi og hæstu einkunn skólans. Pétur mun hefja nám við New England Conservatory í Boston næsta haust.