Valdís Steinarsdóttir hönnuður hefur átt töluverðri velgengni að fagna frá því að hún útskrifaðist með BA gráðu úr vöruhönnun við Listaháskóla Íslands árið 2017. Valdís vinnur mikið með efnisrannsóknir í verkum sínum og segist hún einna helst einbeita sér að skapandi lausnum á umhverfis- og samfélagslegum vandamálum í hönnun sinni. Valdís hefur einnig starfað sem stundarkennari við Listaháskóla Íslands frá árinu 2019.
 
Valdís hefur nú verið tilnefnd til Dezeen verðlaunanna 2020 sem Nýstirni ársins (e. Emerging Designer of the Year), hægt er að kjósa Valdísi á kosningasíðu Deezen hér, í flokknum Emerging Designer of the Year,  við hvetjum ykkur svo sannarlega til að gera það og sýna Valdísi stuðning, kosningin stendur til 12. október.
 
Sigrarnir hafa verið margir hjá Valdísi undanfarna mánuði, en hún hlaut meðal annars titilinn Hönnuður ársins 2020 (e. Nordic Designer of the Year 2020) hjá Formex Nova. Þá tók hún þátt í Hönnunarvikunni í London (e. London Design Week 2020) með verkefni sínu Just Bones og kemur einnig til með að sýna á Hollensku hönnunarvikunni (e. Dutch Design Week 2020) upp úr miðjum október. 
 
valdis_steinarsdottir.png
Valdís Steinarsdóttir

Sögumenn frekar en vöruhönnuðir

Aðspurð um það fag sem Valdís vinnur við segir hún heiti þess; vöruhönnun, í raun villandi. „Gamla ímyndin er sú að vöruhönnun einskorðist einungis við að búa til fallegar vörur sem hafa helst það hlutverk að vera fallegar. Sjálf vil ég nýta mér það að við sem hönnuðir getum haft mikil áhrif á samfélagið.  Það má kannski frekar segja að við séum sögumenn, bæði fyrir samtímann og framtíðina. Sögumenn sem geta með áþreifanlegum hætti beint sjónum fólks að áríðandi samfélagslegum vandamálum.“
 
Meðal verkefna sem Valdís hefur unnið að eru Just Bones, Horse Hair og Bio Plastic Skin. Fyrsta verkefnið hófst þegar hún vann að útskriftarverkefni sínu við Listaháskóla Íslands og skoðaði aukaafurðir í kjötframleiðslu á Íslandi. Hestum á Íslandi er slátrað til manneldis, við borðum kjötið en stór hluti dýrsins er urðaður og þar á meðal beinin. Með Just Bones þróaði Valdís aðferðir þar sem hún nýtti ólíka eiginlega beinanna. Hún brenndi beinin, muldi þau niður í ösku og bjó til lím með beinaöskunni. Með þessu tókst henni að búa til efni með mikinn styrk sem var um leið auðmótanlegt.
 
Sumarið eftir útskrift hlaut Valdís, ásamt Kristínu Karlsdóttur fatahönnuði, styrk frá Rannís til áframhaldandi rannsókna á nýtingu hesta. Þær skoðuðu hrossahúðir og feldi og komust að því að feldur hesta er mjög ójafn að þykkt. Það er talinn svo mikill ókostur að feldinum er jafnan fleygt. Valdís og Kristín ákváðu að skoða hvernig hægt væri að nýta feldinn og nýta sér til góðs þann eiginleika að hann væri misþykkur.
 
Í kjölfar þessarar rannsókna á hrossum varð til verkefnið Bio Plastic Skin. Með því framleiddi Valdís lífrænt plastlíki (e. bioplastic) úr húðum dýra. Plastlíkið varr hugsað til að nota sem umbúðaplast fyrir kjötvörur.  Aðalmarkmið þess var tvíþætt; að skapa náttúrulegt efni sem kæmi í stað hins óniðurbrjótanlega plasts og jafnframt að vekja almenning til umhugsunar um fullnýtingu á kjötvörum við neyslu þess. Í viðtali við Listaháskólann frá 2018 segir Valdís frá því hvernig þessi tvíræðni umbúðanna hafi vakið óhug margra. „Þetta er í sjálfu sér ljóðrænn gjörningur þar sem ég er að setja dýr aftur í húð sína eftir dauðann og framreiða það þannig til almennings. Margir sem ég ræði við um verkefnið og eru kjötætur finnst þessi framreiðsla frekar ógeðfeld. Mér finnst það vera áhugaverð þversögn; fólki finnst eðlilegt að borða ákveðna parta af dýrum en hryllir við tilhugsunina um nýtingu á öðrum pörtum.“
 
 
 

Mikil hvatning

Valdís hefur haft í nógu að snúast undanfarið en hún segir tækifærin í raun verða til þegar maður sækist sjálfur eftir þeim. „Þetta er svolítið eins og snjóbolti, þú rúllar honum af stað og svo stækkar hann og stækkar.“ En boltinn rúllar ekki af stað átakalaust því það er gífurleg vinna sem liggur að baki þeirra viðurkenninga sem Valdís hefur hlotið. „Þetta er ómetanlegt og ég er mjög auðmjúk yfir þessu öllu. Þegar maður er í auga stormsins er svo auðvelt að horfa framhjá þeirri vinnu sem maður hefur lagt í hlutina og fundist að maður sé ekki að gera nóg. Þetta er því ofboðsleg góð hvatning til að halda áfram og skapa ný tækifæri.“

 

Alþjóðleg velgengni á fordæmalausum tímum

Við upplifum undarlega og á stundum einangrandi tíma vegna heimsfaraldursins Covid-19, en í því samhengi er áhugavert að sjá íslenskan hönnuð fagna þessari velgengni á alþjóðlegum vettvangi. Valdís sýndi til að mynda á hönnunarvikunni í London í byrjun hausts, en sú sýning fór fram á netmiðlum. Þá fékk hún viðurkenningu Formex Nova, sem hönnuður ársins, senda heim til Íslands með pósti eftir að hún hafði tekið þátt í rafrænni verðlaunaafhendingu. „Þegar ég vann Formex Nova 2020 var hálffurðulegt að taka við verðlaununum í gegnum netið í stofunni heima hjá mér. Á tölvuskjánum mínum horfði ég á sal og sá bara aftan á hnakkana á fólki og svo mig á stórum skjá. Nema að allt sem ég sá var fimm sekúndum seinna vegna tækninnar, svo ég var alltaf að horfa á mig í fortíðinni. Ég viðurkenni að það var svolítið súrrealist. Ég fékk svo viðurkenningarskjalið sent með pósti, þá fyrst fannst mér þetta verða raunverulegt, og aftur fagnaði ég í stofunni heima hjá mér.“
 
 
img_20200911_143734_881.jpg
 

 

Aðspurð segir Valdís árið 2020 sannarlega hafa verið skrítið. „Ég átti til dæmis að vera að sýna á hönnunarvikum í Mílanó, London, á Spáni, Hollandi og í fleiri löndum. Covid hefur hins vegar gert það að verkum að annað hvort var hátíðunum frestað eða þær færðar yfir á netmiðla.“
Valdís sýndi nýtt verk á HönnunarMars 2020, sem fór fram í júní, en það talar einmitt inn í þessa ólíku skynjun á því sem maður upplifir á áþreifanlegan hátt og hitt sem maður upplifir í gegnum tölvuskjá. „Það hefur verið áhugaverð áskorun að endurhugsa samband fólks við sýningar og veraldlega hluti. Með verkinu mínu ASMR U Ready? sem ég sýndi á  HönnunarMars, og kem einnig til með að sýna á Hollensku hönnunarvikunni 2020, er ég að rannsaka og notast við fyrirbærið ASMR til að miðla verkefnunum mínum til áhorfenda með því að örva önnur skilningarvit en snertingu.“
 
Hægt er að skoða verk Valdísar nánar á heimasíðu hennar (www.valdissteinars.com) og fylgjast með sýningu hennar á hollensku hönnunarvikunni 2020 hér.
 
Við minnum aftur á að hægt er að kjósa Valdísi Steinarsdóttur í flokki Nýstirna ársins 2020 hjá Dezeen hér. Kosningar standa til 12. október.