Valdís Steinarsdóttir, fyrrum nemandi úr vöruhönnun við Listaháskóla Íslands hlaut nýverið verðlaun fyrir hönnunarverkefni sem veitt eru nýútskrifuðum hönnuðum.

Verðlaunin voru afhent á Forum Design de Paris um miðjan nóvember. Valdís sem útskrifaðist vorið 2017 frá Listaháskólanum hlaut fyrsta sæti í flokki Frumgerðar (e. Prodotype) fyrir verkefnið Bio Plastic Skin sem hún hóf að þróa á lokaári sínu í vöruhönnun. Við tókum þennan upprennandi og atorkusama hönnuð tali og spurðum hana um verkefnið, verðlaunin og þau alþjóðlegu tækifæri sem bjóðast ungum íslenskum hönnuðum í dag.
S: Hvernig æxlaðist það að þú tókst þátt í hönnunarkeppni Forum Design de Paris?
V: Thomas Pausz, lektor við hönnunar – og arkitektúrdeild, setti inn auglýsingu á Facebook síðu Listaháskólans um að nýútskrifuðum hönnuðum biðist tækifæri að taka þátt í þessari keppni. Þegar ég sá auglýsinguna ákvað ég að slá til og senda inn tillögu.
 
S: Segðu mér frá verkefninu sem þú hlaust verðlaun fyrir í París
V: Verkefnið heitir Bio Plastic Skin og gengur út á að búa til lífrænt plastlíki (e.bioplastic) unnið úr húðum dýra. Ég byrjaði að þróa það á lokaárinu mínu við Listaháskólann en eftir útskrift unnum við Kristín Karlsdóttir, sem útskrifaðist úr fatahönnun sama ár og ég, rannsóknina áfram. Við fengum styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna til að rannsaka nýtingu hrosshúða í hönnunarvörur og stofnuðum í kjölfarið Studio Trippin. Rannsóknin var tvíþætt þar sem nýting á loðnum hrosshúðum var skoðuð annars vegar og hinsvegar gerð rannsókn á lífræna plastlíkinu. Við vorum tilnefndar til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands 2018 fyrir rannsóknina. Kristín er nú flutt til Danmerkur og er því ekki lengur virkur meðlimur Studio Trippin, en ég held ótrauð áfram að þróa og vinna undir formerkjum þess. Emma Theodórsdóttir grafískur hönnuður sem útskrifaðist sama ár og við Kristín úr Listaháskólanum hefur stigið inn sem grafískur hönnuður Studio Trippin.Verkefnið Bio Plastic Skin  felst í því að búa til sérstakt umbúðaplast fyrir kjötvörur úr dýrahúðum. Aðalmarkmið þess er tvíþætt; að skapa náttúrulegt efni sem kemur í stað mengandi plasts og jafnframt að vekja almenning til umhugsunar um fullnýtingu á kjötvörum við neyslu þess. Þetta er í sjálfu sér ljóðrænn gjörningur þar sem ég er að setja dýr aftur í húð sína eftir dauðann og framreiða það þannig til almennings. Verkið er í raun táknrænt fyrir það hvernig mannveran hefur tekið náttúruna og umbreytt henni til að þóknast sínum þörfum. Margir sem ég ræði við um verkefnið og eru kjötætur finnst þessi framreiðsla frekar ógeðfeld. Mér finnst það vera áhugaverð þversögn; fólki finnst eðlilegt að borða ákveðna parta af dýrum en hryllir við tilhugsunina um nýtingu á öðrum pörtum. Þetta veldur því að verðmætt hráefni fer til spillis við kjötframleiðslu, ef við framleiðum kjöt þá er það á okkar ábyrgð að nýta allt hráefni sem verður til framleiðsluna. Eins og komið hefur fram vann ég verðlaunin í flokki frumgerða þannig að verkefnið hefur ekki verið sett í neina framleiðslu. Ég er ekki alveg viss hvort ég vilji gera þetta að raunveruleika, ég mun sjálfsagt prófa mig áfram með framleiðslu en mér finnst ákveðinn styrkur liggja í því að leyfa hugmyndafræði verksins að vera helsta lokaafurðin.
 
S: Hvað fela svona verðlaun í sér?
V: Í fyrsta lagi er þetta frábær kynning fyrir nýútskrifaðan hönnuð og gott tækifæri til að mynda alþjóðleg tengsl, svona verðalun eru ótrúlega góður stökkpallur fyrir hönnuð sem er að hefja feril sinn í faginu. Verðlaunin sjálf eru peningaverðlaun og verkefnið verður kynnt á Forum Design Paris sem ég mun sækja til að taka á móti verðlaununum. Þar að auki verður verkefnið kynnt í fjölmiðlum, meðal annars í franska tímaritinu Etapés svo þetta ýtir manni svolítiðaf stað út í hinn alþjóðlega hönnunarheim. 
 
S: Hvað hefurðu verið að gera eftir útskrift frá Listaháskólanum?
V: Um daginn var ég að sýna á Dutch Deisgn week í Hollandi, þar sýndi ég verkefnið Horse Fur Project sem er unnið úr íslenskum hrosshúðum sem, líkt og Bioplastic Skin, á upphaf sitt að rekja til námskeiðis í Listaháskólanum þar sem bekknum mínum var sett fyrir að skoða íslenska hestinn. Ég fékk rosalega góðar viðtökur í Hollandi og það var mikill áhugi á verkefninu, þar myndaðist meira segja tækifæri til að sýna verkefnið á ennþá stærri vettvangi, en ég má held ég ekki segja opinberlega frá því strax – það verður tilkynnt síðar. Ég get ekki undirstrikað nóg hversu mikilvægt það er að ungir íslenskir hönnuðir leiti út fyrir landssteinana með verk sín og rannsóknir. Með því getum við sýnt hina fjölbreyttu hönnunarflóru og grósku sem býr á Íslandi og um leið lært af öðrum og orðið fyrir ferskum innblæstri.
 
S: Hvert er svo framhaldið?
V: Í raunnini bara að halda áfram. Ég er búin að vinna miklar efnisrannsóknir á því sem fellur frá í sláturvinnslu. Lokaverkefni mitt úr vöruhönnun frá Listaháskólanum var til dæmis efni sem ég vann úr dýrabeinum. Ég mun halda áfram að rannsaka samband okkar við dýr og skoða þetta át okkar á dýrum. Mér finnst málefnið vera hálfgert ‘tabú’ og þess vegna er nauðsynlegt að skoða það og spyrja gagnrýnna spurninga. Hver veit svo nema að þessar rannsóknir ýti mér út í mannslíkamann og skoðun á honum, hvað ætli sé hægt að gera við okkur?
 
Listaháskólinn óskar Valdísi innilega til hamingju með stórkostlegan árangur á alþjóðlegum vettvangi og hlakkar til að fylgjast þessum atorkumikla hönnuði í framtíðinni