Vala Fannel er alin upp í Reykjavík þar sem hún byrjaði snemma að leika og stundaði nám bæði í tónlist og ballet. 
 
„Tíu ára fluttist ég á Laugar og íþróttir tóku yfirhöndina og ég stefndi á nám í læknisfræði. Einhversstaðar skolaðist það til og ég endaði í leiklistar- og leikstjórnarnámi í London!“ segir Vala en hún lærði bæði leiklist og leikstjórn í The Kogan Academy of Dramatic Arts í London frá árunum 2009-2014. 
 
„Eftir útskrift bjó ég áfram í London í fjögur ár og kenndi, lék í ýmsum uppfærslum í London ásamt talsetningum, leikstjórn og ásamt því að framleiða sýningar í gegnum leikhúsfyrirtækið mitt, StepbyStep Productions.“ Hún tók einnig að sér kennslu hjá KADA þar sem hún kenndi bæði leiklist og leikstjórn til BA gráðu, en eftir útskrift hafði áhugi hennar á leikstjórn og kennslu tekið öll völd. 
 
Árið 2018 fluttist Vala aftur til íslands og tók við kennslustöðu við Leiklistarskóla Leikfélags Akureyrar. 
 
„Sumarið eftir vann ég og leikstýrði glænýju verki um líf unglinga, fml - fokk mæ læf, hjá Leikfélagi Akureyrar, ásamt ungum leikhópi. Síðan hefur bæst við leikstjórn hjá áhugaleikfélögum, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Leikfélagi Akureyrar.“ 
 
Fljótlega eftir komuna norður hóf Vala störf hjá Menntaskólanum á Akureyri sem verkefnastjóri sviðslistabrautar sem er glæný kjörnámsbraut skólans. 
 
„Kennsla og menntun almennt hefur lengi verið mér hugleikinn og fyrir tveimur árum hlotnaðist mér sá heiður að sjá um uppbyggingu sviðslistabrautar MA sem ég hef verið að þróa og kenna við síðan,“ segir Vala og bætir við: 
 
„Það virðist oft sem að litið sé á kennslu sem einhvers konar stöðnun listamannsins. En kennsla og menntun er gríðarlega skapandi vettvangur og í grunninn algjör hliðstæða vinnu í leikhúsi. Ég myndi hvetja alla sem hafa áhuga á skapandi umhverfi, uppbyggingu og mótun hvers konar hugmyndafræði sem er til að kynna sér möguleika kennslunar og kennslufræðinnar,“ segir Vala en árið 2020 hóf hún meistaranám í listkennslufræðum við LHÍ. 
 
Á sama starfsári leikstýrði hún einnig fjölskyldusöngleiknum Benedikt búálfur hjá LA sem var frumsýndur í byrjun mars 2021 og er nú sýndur hjá Sjónvarpi Símans.
 
Hvað varð til þess að hún ákvað að sækja um í listkennsludeild LHÍ? 
 
„Ég hafði öðlast góða menntun í kennslu sem hluti af námi mínu í London en það nám var fyrst og fremst verklegt og ég fann að mig skorti fræðilegan bakgrunn en einnig skilning á verkferlum í faginu á Íslandi. Ég fann að í náminu við LHÍ gæti ég fundið allt sem mig skorti til að fylla upp í þær eyður, “ segir hún og heldur áfram: „Námið er virkilega gott. Það er einstaklingsmiðað og fjölbreytt. Ég hef upplifað mikinn þroska sem kennari í náminu, sjóndeildarhringurinn hefur stækkað og áhugi minn aukist til muna, sem þó var töluverður fyrir.“ 
 
Óhætt að segja að það sé nóg að starfa hjá Völu Fannell en á Á þessu ári leikur hún í Skugga-Sveini hjá leikfélagi Akureyrar samhliða kennslu við MA og LA. Ennfremur stefnir hún að því að ljúka við hönnun á áföngum fyrir þriðja ár sviðslistabrautarinnar hjá MA en það verður kennt í fyrsta sinn á komandi skólaári. 
 
„Þá hefur brautin verið kennd í heild sinni og þróun hennar kemst á næsta stig. Það eru ótal spennandi angar að breiða úr sér á brautinni sem er hrikalega spennandi að halda áfram að þróa. Kennslan á brautinni heldur líka áfram og það er gríðarlega spennandi að taka á móti nýjum nemendum á hverju ári, ásamt því að fylgjast með núverandi nemendum þroskast og dafna í gegnum hvern og einn áfanga. Síðan mun ég að sjálfsögðu halda áfram að leikstýra en get ekki tjáð mig um það neitt frekar að svo stöddu.“ 
 
img_2355_2.jpeg