Laugardaginn 26. maí 2018 buðu meistararanemar í listkennsludeild Listaháskóla Íslands til útskriftarviðburðar í Menningarhúsunum í Kópavogi.
 
Þar kynntu útskriftarnemendurnir lokaverkefni sín með margskonar hætti og gafst gestum meðal annars kostur á að taka þátt í fjölbreyttum smiðjum sem voru lýsandi fyrir lokaverkefni nemenda.
 
Dagskrá hófst í Náttúrufræðistofu Kópavogs á sýningaropnun og leirsmiðju sem Elín Anna Þórisdóttir hélt utan um og Hugrún Margrét Óladóttir bauð einnig upp á skynjunarsmiðju. 
 
 
Í Gerðarsafni voru það Þórey Hannesdóttir og Sara María Skúladóttir sem buðu upp á sína smiðjuna hvor. Þau Lárus Sigurðsson, Þórey L. Guðmundsdóttir, Elsa Arnardóttir og Dagur Sævarsson héldu fyrirlestra og kynntu lokaverkefni sín á þann máta og Svala Ólafsdóttir var með ljósmyndasýningu. 
 
Óhætt er að segja að gestgjafar, gestir og þátttakendur hafi notið sín vel á deginum enda var um afar fjölbreytta og vandaða dagskrá að ræða af hendi listgreinakennaranna. 
 
Ljósmyndir: Leifur Wilberg Orrason